miðvikudagur, desember 29, 2004

Gleðilega rest!

Þá er maður kominn til Akureyris þar sem fólk segir gleðilega rest, eins skrítið og það kann að hljóma. Ég er orðinn vanur því að vera á Íslandi og tilhugsunin um að fara aftur til Danmerkur er svolítið skrítin, en samt góð. Það verður gaman að fara aftur út þótt næsta hrina verði í lengra lagi. Ég býst ekki við því að koma heim um páskana og því verð ég í tæpa sex mánuði í Danmörku, frá 10. janúar til 4. júlí. Vonandi verður jafn gaman og það var í haust.

En já, ég ákvað að skella mér til Akureyrar (ég veit að það er vitlaust að segja Akureyris en það er bara skemmtilegara) til að heimsækja pabba og fjölskyldu ásamt Fjólu systur og Davíð kærastanum hennar. Við förum aftur heima á morgun og eyðum áramótunum fyrir sunnan. Það á enn eftir að koma almennilega í ljós hvað gerist á gamlárskvöld en sama hvað það verður þá mun verða gaman eins og alltaf, það er ég viss um. Á annan í jólum fór ég á Litlu-jól með strákunum og svo á ball með Sálinni í Stapa og það var rosaleg stemmning og margt um manninn eins og alltaf. Gaman að hitta allt fólkið sem maður hafði ekki hitt í töluvert lengri tíma en oftast.

Ég kveð ykkur að sinni, vonandi eigið þið gleðilega rest. :)
Kær kveðja að norðan,
Magnús Sveinn.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jólastúss og almennt annríki

Það er ekkert smá mikið búið að vera að gera hjá mér síðan ég kom heim. Núna er ég búinn að vera heima í akkúrat viku þegar þetta er skrifað og viljiði vita hvað ég er búnn að gera? Hmmm... látum okkur sjá. Ég er búinn að fara á eina tónleika, í tvö partý, á keflvískan skemmtistað, á keflvískt ball, tvo daga og tvö kvöld í sumarbústað, búa til nýja heimasíðu fyrir ættina mína, kaupa sex jólagjafir, fara á litlu jól, hitta gamla aðalinn minn og síðast en ekki síst fara í skötuveislu! Kannski er ég að gleyma einhverju. En ég hafði amk ekki tíma til að blogga.

Bæði tónleikarnir sem ég fór á síðasta fimmtudag og ballið síðasta laugardag voru með Hjálmum sem eru orðnir ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Er einmitt að hlusta á diskinn þeirra núna. Eintóm snilld. Og tónleikarnir, þar sem Hjálmar spiluðu með KK, voru alveg frábærir! Þeir tóku lög eftir KK í reggí stílnum sínum og lögin af disknum sínum, auk þess sem KK spilaði lög eftir sig og nokkur cover-lög líka. JólaTaðurinn var svo haldinn með miklum glæsibrag í sumarbústað ömmu og afa í Þrastarskógi á sunnudaginn og fram á þriðjudag. Alltaf gaman að skella sér í bústað og vonandi að JólaTaðurinn sé hefð sem nái að halda sér.

Það er nóg af hefðum og Litlu-Jól verkfræðinnar eru ein af þeim. Að vísu hafa næstum allir sem þau stunda hætt í verkfræði en Litlu-Jólin eru haldin árlega engu að síður. Þau voru í gær og það var mjög gaman. Í gær hitti ég líka útskriftarhópinn minn gamla sem fór til Ríó í byrjun árs 2002. Ég mætti seint og það var því heldur stutt í annan endann en samt gaman að sjá þetta frábæra fólk aftur.

Núna er allt stúss búið fyrir utan tvær gjafir sem ég ætla að kaupa á eftir og svo mega jólin koma. Á jólunum erum við oftast annað hvort hér heima eða hjá ömmu og afa en þetta árið verður mamma á Akranesi og allt með öðru sniði en vanalega. Ég og Fjóla verðum hjá Höllu systur og þangað kemur pabbi og fjölskylda að norðan og Jóda stjúpsystir líka með son sinn. Við verðum tíu manns við jólaborðið og þar af tveir litlir snáðar og jólagleðin verður því eflaust mikil þar á bæ. Ég man hvað það gat verið erfitt að bíða eftir því að fá að opna pakkana. En talandi um pakka, það er víst best að fara að pakka inn gjöfunum og klára að kaupa þær síðustu. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.
Magnús Sveinn.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Heim

"Ééééeg hlakka svo til! Ég hlakka alltaf svo tiíiil!!"

Það eru að koma jól. Og ég skal snart til Íslands aftur. Sjáiði hvað ég er orðinn danskur! Ég er meira að segja farinn að sletta dönskunni upp um alla veggi. Á fimmtudaginn verð ég hinsvegar kominn aftur á Frónið og þá geta Íslendingar loksins komist í jólaskapið. Týndi sonurinn kominn heim. Að minnsta kosti í bili. Tíunda janúar fer ég aftur til Danaveldis og tek næstu önnina í þessum skóla í nefið.

Það stefnir allt í þrusugóða jólahátíð þetta árið. Ótrúlega mikið planað eitthvað, ég hef varla tíma til að anda. En hver þarf að anda þegar það eru jól! Þetta verður hrikalega gaman og ég hlakka til að sjá ykkur öllsömul aftur þið sem eruð heima.

Verkefnið er að klárast hægt og bítandi. Það er lengi hægt að finna eitthvað að bæði skýrslunni og síðunni sem þarf að snurfusa og laga til þannig að allt sé fullkomið þegar við skilum inn. Vonandi verður allt tilbúið á morgun (miðvikudag) því Lára og Elva eiga flug í hádeginu á fimmtudaginn og þótt ég sé með opinn miða þá langar mig að fljúga á fimmtudagskvöldið. Eyða jafnvel deginum á Strikinu og kaupa kerti og spil handa fjölskyldumeðlimum. Ég biðst afsökunar fyrirfram ef það verða bara tuttugu og sex spil í sumum spilastokkunum, ég er nefnilega í alvörunni fátækur námsmaður þetta árið, alveg í bullandi mínus. Það kemur ekki í veg fyrir að hátíðin renni í garð klukkan sex á aðfangadag, og þá fer ég í kirkju. Einu sinni á ári fer ég í kirkju og það er á aðfangadag með ömmu og afa. Það gerist ekki jólalegra. En verkefnið klárar sig ekki sjálft. Sjáumst fljótlega,
Magnús (Jóla)Sveinn.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ríó

Undanfarna daga hefur verkefnavinna tekið nær allan minn tíma og þess á milli hef ég bara ekki nennt að blogga um verkefnið því það er það eina í mínu lífi þessa dagana! Það gengur fínt og vonandi næst að klára það tveim dögum fyrir síðasta skiladag svo ég komist heim og missi ekki af einu helginni sem ég gæti átt heima fyrir jól.

Á morgun (fimmtudag) er einskonar kveðjupartý fyrir nemendur NoMA því allir fara til síns heima yfir jólin hvort sem það er á Íslandi, í Finnlandi, Færeyjum eða Svíþjóð. Það verður gott að geta tekið hugann aðeins af verkefninu og stefnir allt í gott partý.

Ég hef (augljóslega) ekki enn nennt að setja inn myndir frá helginni þegar við fórum til Köben en það hlýtur að gerast einn daginn. Sjaldgæft að mig grípi svona mikil bloggleti. En það er ekki leti hjá Hlyni og Jóhönnu því þau eru á flakkinu í S-Ameríku! Og Hlynur er farinn að blogga hérna! Kíkið endilega á hann. Það rifjar upp margar minningar frá Ríó að lesa þetta. Það er stórskemmtileg borg, ég á eflaust eftir að heimsækja hana aftur ef ég fæ einhverju um það ráðið. Kveðja,
Maggi.

fimmtudagur, desember 02, 2004

HJÁLPIÐ MAGNÚSI!

Það er aldeilis að bloggletin hefur tekið völdin hérna. En nóg hefur verið að gerast. Ég fór til Kaupmannahafnar síðustu helgi í fríðu föruneyti. "Hópurinn", sem sagt ég, Gústi, Elva, Lára og Rebekka, ákváðum að fara öll á fimmtudeginum því það væri ómögulegt að vera bara eina nótt, og lestirnar eru líka ódýrari á fimmtudögum en föstudögum. Við gistum í gömlu íbúðinni hennar Elvu þar sem Inga vinkona hennar býr núna, og það voru góðar móttökur á þeim bænum. Á föstudeginum fór ég svo á tónleika með Interpol með nokkrum strákum hér úr skólanum en krakkrnir áttu ekki miða (það var löngu uppselt). Tónleikarnir voru frábærir (að sjálfsögðu) þótt það næðist ekki sama stemmning og næst alltaf heima á Íslandi á tónleikum. En Interpol voru virkilega góðir og gaman að fá að sjá þessa snilldar hljómsveit spila aftur, en ég sá þá einmitt á Hróarskeldu '03 þegar þeir voru rétt að byrja að meika það.

Eftir tónleikana var svo djammað niðrí bæ langt framundir morgun og voru sumir orðnir ansi skrautlegir, nefni engin nöfn. Á laugardeginum ætluðum við svo að fara heim en það var svo gaman hjá okkur að ég, Lára og Elva ákváðum að vera eina nótt í viðbót en Gústi og Rebekka fóru heim. Við hittum aftur eitthvað af strákunum sem við höfðum hitt kvöldið áður og kíktum á tónleika með íslenskri pönkhljómsveit sem syngur á dönsku. Þessir tónleikar voru í Öresunds-kollegí þar sem ég held að hlutfallið sé 600 Íslendingar af 2000 manns í heildina sem búa þar. Það er bara ekki þverfótað fyrir þessum Íslendingum útum allt.

Á sunnudeginum kíktum við svo niður í bæ og sáum stóra jólatréið á torginu í fullum skrúða þegar búið var að kveikja á því (rétt misstum af því þegar kveikt var) og sáum milljón manns á Strikinu, enginn smá mannfjöldi um allan bæ. En við vorum þreytt eftir helgina og drifum okkur heim. Vikan er svo búin að fara í eintóma verkefnavinnu því við höfum bara tvær og hálfa viku til að klára þetta verkefni og við viljum sko gera það almennilega.

Það er einmitt meiningin með fyrirsögninni. Ef þú smellir á hana þá ferðu beint á könnun sem við settum á netið og hún snýst um Bang & Olufsen sem verkefnið okkar fjallar einmitt um. Endilega takið þátt í könnuninni fyrir mig og ef þið eruð hjálpsamar manneskjur þá megiði láta sem flesta vita af henni! Það væri ótrúlega vel þegið, sendið póst á alla sem þið þekkið eða gangið með skilti niðrí bæ eða eitthvað. Það myndi hjálpa okkur alveg helling. :) Ég læt svo inn myndir af helginni hingað á síðuna á morgun. Þarf að leggja mig núna. Góða nótt,
Magnús Sveinn.

*uppfærsla* könnunin er búinn og linkurinn því farinn. :)

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Köben, here I come!

Þá er ferðinni heitið til höfuðborgarinnar aftur, í þetta sinn til að fara á tónleika með Interpol!!! Jeah baby! Það verður geggjað! Interpol!! Krakkarnir ("hópurinn") voru búnir að tala eitthvað um að fara líka þessa helgi og ákváðu það áðan, þannig að við förum á morgun og komum heim á laugardaginn! Það er töluvert ódýrara að taka lestina á þessum dögum heldur en á föstudögum og sunnudögum og það er skemmtilegra að gista tvær nætur í Köben fyrst maður er að fara á annað borð. Þannig að þetta er fínasta lausn.

Lítið að frétta af mér annars. Allt gengur sinn vanagang. Mikið rætt um jóla- og áramótaplön og óvíst hvernig það endar hjá minni fjölskyldu. Ég er farinn að halda að ég endi bara á Básnum og fái mér hamborgaratilboð á aðfangadaskvöld. Gæti verið verra. En ég hlakka samt mikið til að koma heim.
Magnús.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þegar góða gesti ber að garði...

...þá er skylda að halda partý! Ég ætla semsagt að kíkja á mannfögnuð í kvöld vegna komu kærasta Birnu og tvíburasystur og bestu vinkonu Kollu. Eflaust mikið stuð á mannskapnum enda alltaf gaman að hitta fólkið sitt eftir einhverja fjarveru. Annars er minna en mánuður þar til ég kem heim! Vúppí! Það verður hrikalega skemmtilegt, og ég hlakka extra mikið til jólanna þetta árið. Farið öll varlega heima á skerinu! Lítill fugl hvíslaði að mér að það væri búið að snjóa ofurlítið hjá ykkur. Kveðja úr góða veðrinu,
Magnús.
It's true

You can be whatever you can imagine.

You can do whatever you can imagine.

You can have whatever you can imagine.

You just have to believe it,
and that's the tricky part.

God

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

D & D

Hjálmar eru einkar skemmtileg og hressandi hljómsveit. Mæli með plötunni þeirra sem heitir 'Hljóðlega af stað'. Íslenskt reggí! Hverjum hefði dottið í huga það gæti verið skemmtilegt? Jú, liðsmönnum Hjálma greinilega.

Ég er eitthvað latur þessa dagana. Fór að vísu á Knuds Garage í gær sem er vinsælasti pöbbinn í Kolding hjá nemendum NoMA. Ég fór þó ekki til að sötra bjór heldur til að taka þátt í Pub-Quiz sem er spurningakeppni sem er haldin þar á hverju þriðjudagskvöldi. Það er virkilega skemmtilegt og virkar þannig að fólk hópar sér saman í lið og svo eru lesnar upp 32 spurningar sem og liðin skrifa niður svörin sín á blað. Stjórnandinn er stórskemmtilegur Íri og maður getur bókað það að ef Írland er valmöguleiki við einhverri af spurningunum þá er það rétta svarið. Ég, Birna og Kolla vorum saman í liði eins og síðast þegar við mættum á Pub-Quiz en það gekk nú ekki alveg jafn vel og síðast. Þá lentum við í öðru sæti og flengdum strákana á öðru ári sem við vorum að keppast við, en þeir fengu skammarverðlaunin það kvöldið. Það var hinsvegar komið að okkur að hljóta skammarverðlaunin í gærkvöldi, en við lentum í neðsta sæti ásamt einu öðru liði. Sem betur fer voru strákarnir ekki mættir í gær enda hefði okkur eflaust verið nuddað uppúr tapinu ansi lengi.
Maggi.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Mánudagur til mæðu

Æðislega gaman að mæta örþreyttur í skólann á mánudagsmorgni og frétta þá að kennarinn er veikur og maður hefði getað sofið tveimur tímum lengur. Eða bíddu... NEI! Það er sko allt annað en skemmtilegt! Og nákvæmlega það sama gerðist síðasta föstudag nema þá var það annar kennari. Þeir eru eitthvað heilsulitlir greyin þessa dagana. Og ég var að lesa á mbl.is að aumingja grunnskóla-kennararnir heima á Íslandi væru voðalega slappir líka eitthvað og geta ekki mætt til vinnu. Eflaust komnir með legusár eftir þetta langa verkfall. Annars skil ég þá svosem alveg. En þetta er ömurlegt ástand fyrir alla sem koma að málinu. Vonandi finnst lausn á þessum leiðindum fljótlega.

En þrátt fyrir slappan mánudag þá var helgin mjög skemmtileg. Víí. Og á morgun er föstudagur því eins og allir vita eru bara tveir virkir dagar í Danmörku á móti tveimur helgardögum.
Maggi.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Sjaldan fellur óbarinn biskup langt frá eikinni

Stundum sest maður niður og hugsar, jæja, nú er best að blogga smá. Kannski hefur maður ekki hugmynd um hvað maður ætlar að fara að skrifa um, en þá er bezt að skrifa bara það fyrsta sem manni dettur í hug! Þá endar maður stundum með svona bull í færslunni sinni eins og núna.

Það er að koma helgi, og sem endranær þá er nóg um að ske í Kolding. Mamma og systir Rebekku eru að koma í heimsókn í dag og verða yfir helgina, Hekla ætlar að halda uppá afmælið sitt í kvöld og svo er Íslendingafélagið hér í Kolding að fara að hittast á einhverum bar hérna í bænum. Það væri eflaust skemmtilegt að kíkja á þann mannfögnuð og hitta enn fleiri Íslendinga sem eru búsettir hérna nálægt.

Ég er búinn að vera að leika mér í Flash í gær og í dag og er áhugi minn á þessu frábæra forriti að lifna við eftir einum of langan dvala. Ég setti að sjálfsögðu afraksturinn á netið svo þið getið skoðað herlegheitin ef ykkur langar til. Ég gerði eina stuttmynd sem er að finna hérna og eina aðra litla sem þú getur skoðað hér. Ég set örugglega meira svona sniðugt á netið fljótlega ef ég verð duglegur í Flashinu. Njótið helgarinnar! Hún kemur nefnilega bara einu sinni í viku. Kveðja frá Kolding,
Magnús Sveinn.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Próf og myndir

Við tókum smá könnun í skólanum í gær, bara til að sjá hvar við stöndum og svona. Mér gekk bara vel og vonaðist til að hafa náð öllum spurningunum rétt. Þetta voru bara 24 krossaspurningar úr öllum fögunum, eða sex úr hverju fagi. Við fengum svo útkomuna í dag og ég var með eina villu. Get varla verið ósáttur með það.

Ég setti loksins inn myndirnar úr afmælisveislunni í Randers síðasta föstudag þar sem Rebekka og Caroline héldu uppá tvítugsafmælin sín. Alltaf gaman að skoða myndir þannig að ég setti bara inn næstum allar myndirnar sem voru teknar. Endilega kíkið á þær hérna.
Maggi.

mánudagur, nóvember 08, 2004


Föngulegur hópur
Ammmmmmmmæli

Það var virkilega skemmtilegt á föstudaginn í afmælisveislunni hjá Rebekku og Caroline. Hún var haldin í stórum flottum sal og var mjög mikið af fólki, tæplega hundrað manns. Við fengum rosalega gott að borða og svo var bara setið og spjallað og drukkið fram eftir kvöldi. Það kom samt einhver kona og kenndi okkur kúrekadans og maður var nú alls ekki svo ryðgaður síðan við lærðum þetta í danstímum í FS. :) Svo kíktum við nokkur saman niður í bæ og fórum á Crazy Daisy í Randers, sem er miklu mun betri staður en Crazy Daisy hérna í Kolding. Hef ekki prófað staðinn í Köben. :) Þetta er semsagt skemmtistaða keðja hér um alla Danmörk. Eftir það fórum við svo uppí sveit og sváfum þar og fórum í smá göngutúr og fengum okkur að borða áður en við tókum lestina aftur til Kolding. Ég set inn myndir fljótlega af ferðinni.

Í gærkvöldi kíktum við svo í heimsókn til vina okkar og fórum niður í bæ eftir það og það var mjööög fróðlegt og skemmtilegt kvöld. Margar frábærar sögur til af því kvöldi og tekur því ekki að byrja á að segja frá því öllu. Ég sleppi því bara alveg.

Við vorum að horfa á fyrsta þáttinn í nýrri seríu af 'The O.C.' og hann var bara mjög fínn! Gúffuðum líka í okkur kalkún og kartöflum með svaka sósu og við borðuðum öll svo mikið að við gátum ekki fengið okkur eftirréttinn sem varð eftir síðast (borðuðum líka of mikið þá). Við erum miklir sælkerar en líka mikil svín.

Kannski ágætt að minnast á það að þegar ég segi 'við' í færslunum þá á ég oftar en ekki við hópinn okkar úr skólanum því við erum mjög mikið saman þessa dagana. Það er semsagt ekki bara við sem leigjum saman heldur ég, Lára, Elva, Gústi og Rebekka sem erum eins og fimmburar. Enda fólk komið með vænan skammt af einkennum hinna í hópnum. :) Vonum að við endum ekki á því að verða öll sama manneskjan.
Maggi.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Sprengidagur í nóvember?

Enn brennur í flugeldaverksmiðjunni og þessir gámar sem eru eftir virðast aldrei ætla að springa. Það síðasta sem ég heyrði var að þeir voru að hugsa um að senda skriðdreka á svæðið til að sprengja þá upp. Ekki veit ég meir um það, en það verður gott þegar þetta verður búið.

Á léttari nótunum, við erum að fara í afmælisveislu í kvöld til Randers. Rebekka og vinkona hennar Caroline ætla að halda saman uppá tvítugsafmælið sitt og stefnir allt í svaka veislu. Við erum þrettán krakkar héðan úr Kolding sem förum núna rétt á eftir með lest til Randers og í veisluna og svo gistum við öll þar í nótt. Það verður gaman að segja frá veislunni og sýna myndir. Stay tuned! Kveðja frá Kolding,
Magnús.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004


Af mbl.is
18 hours later

Það er eitt umræðuefni í Kolding í dag. Enda er það skiljanlegt þegar flueldaverksmiðja í íbúðahverfi í bænum ákveður að springa í loft upp. Það er enn verið að reyna að slökkva eldana og vonandi tekst það í dag. Þeir eru samt viðbúnir því að tveir aðrir risa gámar springi, og það gæti alveg eins gerst núna á hverri stundu.

Fjölmiðlar hér í Danmörku fjalla auðvitað um málið í öllum fréttatímum og á forsíðum blaðanna, og heima á Íslandi er víst farið að fjalla eitthvað um þetta líka þrátt fyrir að ótrúlega mikið sé í fréttunum þessa dagana. Mbl.is er með grein núna á forsíðunni hjá sér og er sú grein hérna. Sjónvarpsstöðvarnar hafa verið að sýna fullt af myndum af flugeldunum og eitthvað af klippum sem náðust af stóru sprengingunni. En á heimasíðunni hans Óla sem er á öðru ári í NoMA er vídjó af stóru sprengingunni sem hann náði útum eldhúsglunnann hjá sér og það er lang flottasta vídjó sem ég hef séð af stóru sprengingunni! Miklu flottara en það sem allar sjónvarpsstöðvarnar eru að sýna! Kíkið endilega á það. Heimasíðan hans er www.nakke.com og vídjóið er hérna.

Skrifa meira seinnna! það er verið að fara að rýma allt og sprengja gámana!!! AAAARRRGGH!!!! í alvöru! fokk.... bless í bili!.
MSJ

*** bætt við hálftíma seinna ***


False alarm...

Það var ekkert sprengt núna áðan. Við fengum samt hringingu frá Heklu sem var uppí skóla og þar voru allir reknir út því það átti að sprengja tvo gáma sem enn standa þarna nálægt eldinum. Við hlupum út til þess að sjá sprenginguna og taka myndir en um leið og við komum á staðinn fengum við aðra hringingu um að það hefði verði hætt við að sprengja, eða amk í bili. Þannig að við lékum okkur bara og tókum upp vídjó af hermönnunum og okkur sjálfum og ég náði þessari skemmtilegu mynd af tveimur hermönnum. Algjör tilviljun en fullkomin uppsetning! :D Vonandi fáum við fregnir af því þegar verður sprengt í dag þannig að við getum tekið myndir. En ég minni aftur á vídjóið hans Óla. Það er á QuickTime formati (.mov) þannig að þið þurfið slíkan spilara til að spila það. Alveg magnað. Ég læt vita þegar eitthvað fleira djúsí gerist. Kveðja,
Magnús.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004


Ótrúleg sjón!
Neyðarástand í Kolding!

Það eru nú aldeilis tíðindi frá Kolding á þessum miðvikudegi! Klukkan tvö í dag kveiknaði í flugeldaverksmiðju sem er hérna í Kolding, u.þ.b. 2 km. frá heimili okkar. Við létum nú vera að fara nær til að skoða en heyrðum læti þegar við fórum út. Klukkan kortér í sex þegar við vorum að horfa á sjónvarpið heyrðum við líka þessa rosalegu sprengingu. Við héldum að allar rúðurnar í blokkinni myndu springa! Við urðum auðvitað skelfingu lostin, hlupum út til að reyna að sjá eitthvað og um leið og við komum út heyrðum við aðra rosalega sprengingu! Við sáum hana nú samt ekki því blokkin skyggði á útsýnið. Ég, Rebekka og Elva tókum myndavélarnar okkar og fórum hjólatúr til þess að athuga gang mála. Við enduðum uppá hæð þar sem var ágætt útsýni og stóðum þar og göptum útaf þessari mögnuðu sjón. Verksmiðjan var þá búin að vera í ljósum logum í rúma fjóra klukkutíma og ennþá skutust flugeldar í allar áttir!

Slökkvuliðið ræður enn ekki við neitt og má alveg búast því að þetta verði löng barátta. Það er auðvitað rosalega erfitt að komast að þessu því það er svo mikið af sprengiefnum í geymslu þarna. Einn slökkvuliðsmaður er látinn og fréttir segja að sex til fimmtán aðrir séu slasaðir. Það logar núna í 15-20 húsum í kringum verksmiðjuna þegar þetta er skrifað. Vonandi ná þeir að bjarga restinni af hverfinu. Það er ágætis veður, lítill vindur, þannig að það ætti ekki að dreifast vegna hans í það minnsta. En þegar flugeldarnir skjótast í allar áttir er auðvitað erfitt að bjarga nálægum húsum.

Hérna erum komnar inn þær myndir sem ég náði af flugeldaverksmiðjunni. Ég er líka búinn að setja inn vídjó (á íslenskum server):
Vídjó 1: Tekið frá blokkinni þar sem við búum (2.4 MB).
Vídjó 2: Kominn nær og tala um hvað gerðist (4.7 MB).
Vídjó 3: Annað sjónarhorn (1.4 MB)
Vídjó 4: Sama sjónarhorn, nærmynd (2.8 MB)

Kveðja frá Kolding í uppnámi,
Magnús.
We're all living in America, America is wunderbar.

Það þarf svosem ekki þýska þungarokkhljómsveit til að segja okkur það, en við búum öll í Bandaríkjunum. Hvort þau séu wunderbar eða ekki má svosem deila um. En í raun ættum við öll að fá að kjósa í forsetakosningum þegar þær eru haldnar þar vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem úrslitin munu á alla heimsbyggðina. Ef við fengjum öll að kjósa þyrfti ekki að spyrja að því hver hefði unnið kosningarnar sem voru haldnar í gær. John nokkur Kerry.

En, vegna fáfræði um stöðu mála og gífurlegs hræðsluáróðurs Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum kusu fleiri George Bush en John Kerry. Næstu fjögur árin hafa Bush og félagar frjálsar hendur til að herja stríð í þeim löndum sem þeim sýnist og reyna að mestum mætti að vinna heimsyfirráð. Spurning hvort þetta kjörtímabil nýtist þeim til að byrja á stærsta áfanganum í þeirri herferð, 'Liberation of China'. Eins og þeir hafa sagt væri Kína mun betur sett ef Bandaríkin réðu yfir þessu fjölmennasta landi í heimi.

Hvort sem þessi áætlun þeirra sé raunveruleg eða ekki (ég ef góða trú á því í ljósi augljósrar geðveilu þessarar stjórnar) þá neita ég að trúa öðru en að öll ríki heims sem Bandaríkin hafa fengið upp á móti sér með sínum aðgerðum muni gera það sem í þeirra valdi stendur til að minnka völd þessa ótrúlega valdamikla lands. Því fyrr því betra. Vonum bara að þriðja heimsstyrjöldin brjótist ekki út í leiðinni.

En við Íslendingar tökum ekki afstöðu á móti Bandaríkjunum. Við stöndum þétt að baki stóra bróður og biðjum hann um að passa okkur. Og fyrst stóri bróðir er ekkert annað en ofvirkt barn að leika sér með hlaðna byssu, erum við þá ekki eins og kornabarn sem lítur upp til stóra bróður? Okkur væri nær að vera sá fullorðni sem hefur vit fyrir barninu. En nóg af myndlíkingum. Ég vildi bara lýsa yfir vonbrigðum mínum með úrslit næturinnar. Vonandi hafa þau ekki jafn slæm áhrif og margir óttast.
Magnús.

mánudagur, nóvember 01, 2004


Leaf
Vegna fjölda áskorana...

...hef ég skipt aftur um bakgrunn. Skil ekki þessa fóbíu í fólki með ljóta bakgrunna. Stundum verður maður bara leiður á öllum formlegheitum og þarf eitthvað sem er ljótt og sker í augun svo maður kunni betur að meta seinna það sem fallegt er. Ef allt væri fallegt væri ekkert fallegt í raun. Eða hvað?

Ég er byrjaður á nýrri smásögu. Það er komin í gang smásagnakeppni á rithringnum og maður getur valið að skrifa eina málsgrein dag í sögunni. Þannig geta allir fylgst með framgangi sögunnar í heilan mánuð. Þetta þykir mér skemmtilegt og eru komnar nokkrar skemmtilegar sögur í gang. Sögurnar eiga að vera grínsögur. Ef þið viljið skrifa (eða bara lesa) þá mæli ég með því að þið kíkið í heimsókn á rithringinn.

Við erum komin af stað með nýja verkefnið okkar fyrir skólann. Það tókst að komast að niðurstöðu á sunnudaginn um hvaða fyrirtæki við ætlum að taka fyrir. Við eigum að velja okkur eitthvað fyrirtæki og gera síðu fyrir það án þess að hafa samband við fyrirtækið og auðvitað eigum við að skrifa svaka skýrslu um lausnina okkar og hvernig við unnum að henni. Ég skrifa seinna hér á síðuna hvaða fyrirtæki við völdum. :) En það er nóg að gera! Adios amigos!
Maggi.

laugardagur, október 30, 2004


Myndir úr partýinu!
Hrekkjavaka tekin með stæl!

Það rættist aldeilis spádómur okkar um partýið því það var rosalega skemmtilegt! Fólkið var mjög duglegt við að mæta í búningum og voru þeir margir hverjir virkilega flottir og mikið lagt í þá. Myndavélin var á lofti allan tímann og ég tók rúmlega 250 myndir um kvöldið! Geri aðrir betur! Þær voru allar svo flottar að ég átti í erfiðleikum með að sortéra út einhvern slatta til að setja á netið þannig að ég endaði með því að setja 116 myndir inn! Þið skoðið þetta bara allt saman og hafið gaman af! :D Það á örugglega mikið af fólki eftir að setja myndir á netið úr þessu partýi því það voru mjög margir með stafrænar vélar og endalaust mikið tekið af myndum. Ég set kannski inn linka frá þeim eftir helgina. Núna er partý hjá Gústa en ég held að maður taki því nú frekar rólega eftir hörkudjammið í gær. Myndirnar sem ég setti inn eru á íslenskum server þannig að þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af utanlands-downlodinu ykkar þótt þið skoðið þær allar. :) Myndirnar eru hér.
Magchen the Cowboy.

fimmtudagur, október 28, 2004


"I wanna be a Cowboy Baby!"
Kolding's Most Wanted!

Um helgina er hrekkjavaka og í tilefni af því verður mikið partýstand. Það verður svaka partý á Munkegade og þar sem allir að mæta í búningum sem gerir það auðvitað helmingi skemmtilegra! Og gettu hvað ég ætla að vera? Já þú gast þér rétt til, ég ætla að vera kúreki baby! Yeah! Við ætluðum nokkur saman að vera kúrekar, reyndar við öll sem erum saman í hóp í nýja verkefninu, en einhvernveginn fór það þannig að ég er einn eftir sem ætla að vera kúreki! En ég verð nú samt ekki í leiðinlegum félagsskap því Gústi ætlar að vera lögreglustjórinn (The Sherrif, ég ætla auðvitað að syngja "I shot the sherrif" allt kvöldið) og stelpurnar þrjár ætla allar að vera gleðikonur! Svona gamaldags gleðikonur sem voru á kránum í gamla daga að höstla kúrekana. Ekki veit ég af hverju það er svona eftirsótt starf, en þær taka sig amk mjög vel út í búningunum þannig að við strákarnir erum ekkert að kvarta! :D

Við fórum í Storcenter í dag og keyptum allskonar hluti sem passa við þessi hlutverk okkar og ef við verðum ekki langflottasti hópurinn í partýinu þá veit ég ekki hvað! Þetta verður eflaust rosalega gaman. Og ég ætla sko ekki að gleyma myndavélinni heima í þetta skiptið! Það verður tekið nóg af myndum! Og vonandi rata þær hérna inná síðuna fljótlega. :) Vonandi verður helgin ykkar allra skemmtileg og vonandi náiði að gleyma kuldanum þið sem eruð heima á elsku ískalda Fróni.
Maggi.

mánudagur, október 25, 2004


Sjálfsmynd
Today is the first day of the rest of my life... so yesterday was the last day of my life until then?

Ég sakna heimspekilegra pælinga. Ég var að frétta að Birna sem er með mér í bekk (og er gífurlega ákafur bloggari hérna) er skráð í heimspeki í H-skóla Íslands. Hún mætir að vísu frekar sjaldan í tíma því hún á heima í Danmörku. En mér fannst gaman í heimspeki. Ok, maður átti það til að sofna í tímum eða gleyma sér og horfa á skýin útum gluggann eða eitthvað álíka merkilegt og kennararnir gátu verið frekar leiðinlegir og talað við töfluna. En þeir gátu líka verið skemmtilegir og pælingarnar voru oftast virkilega áhugaverðar. Ég held að ég þurfi að fara að komast í einhverja djúsí bók um heimspeki.

Ég man hvað ég var fúll þegar ég skrifaði niður þvílíkar heimspekilegar pælingar sem að voru búnar að gerjast í hausnum á mér í nokkur ár en komst svo fljótlega að því að einhverjir gaurar höfðu stolið öllum hugmyndunum mínum fyrir mörg hundruð árum! Ég þoli ekki þegar það gerist. Kannski ætti ég að fínpússa þær eða byrja algjörlega á nýjum pælingum. Byrja frá grunni. Það lærði maður nú í þekkingarfræði. Það er ekki hægt að vita neitt nema að ná að skilgreina þekkingu. En vandamálið er það hefur engum tekist að skilgreina þekkingu! Þannig að í raun þá veit enginn neitt fyrir víst. Flestir halda eitthvað, og jafnvel telja sig vita suma hluti. En það er auðvitað barnalegt að halda því fram. Ég veit ekki neitt, þú veist ekki neitt, það veit enginn neitt. En það þýðir ekki að það megi ekki velta sér uppúr skemmtilegum heimspekilegum og jafnframt tilgangslausum pælingum.

Þetta ágæta blogg sem hefur snúist útí það sem það átti alls ekki að vera (sem er endalaust mal um það sem á daga mína drífur) var einmitt á hátindi sínum þegar ég var að bulla um heimspeki. Það fannst mér að minnsta kosti. Og ef ykkur fannst það ekki þá tek ég ekkert mark á því af því þið vitið ekkert hvort eð er. Vonandi tekst mér að standa við það sem ég ætla núna að leggja fram. Ég ætla að setja mér markmið. Að minnsta kosti ein innantóm, heimskuleg, grátbrosleg en á sama tíma stórskemmtileg færsla á viku um ekki neitt. Og hana nú! (sagði hænan og lagðist á bakið).
Magnús þenkjari.

Ghost Traffic
New group...

Jæja, þá er hópavinnan byrjuð aftur og í þetta skiptið erum við með töluvert frjálsari hendur en í síðustu skipti. Við fáum að ráða hvaða fyrirtæki við tökum og fáum sjálf að ráða hópum. Ég, Gústi, Rebekka, Elva og Lára erum búin að mynda þennan líka þrusu hóp sem ætlar að taka þetta verkefni algjörlega í nefið! :)

Við eigum að gera einhverja herferð fyrir stofnun sama hvort það er góðgerðar-starfsemi eða fyrirtæki. Núna er bara að leggja höfuðið í bleyti og gera eitthvað magnað! Þetta verkefni er átta vikur, fyrst fimm vikur með skólanum og svo þrjár þar sem við erum bara í verkefnavinnu. Þetta er spennandi og við erum öll búin að lofa okkur að við ætlum að vera ótrúlega dugleg og geta verið stolt af því sem við gerum. Vonandi er veturinn ekki of harður heima, það er ennþá haustfílingur í veðrinu hér. Ég var úti á bolnum fyrr í dag! (að vísu ekki lengi og mér varð soldið kalt, en samt).
Maggi.

sunnudagur, október 24, 2004

Ótrúlegt en satt

Eða kannski bara ekki svo ótrúlegt, en það var rosalega gaman um helgina. Á föstudaginn ákváðum ég, Gústi og Elva að kíkja útá lífið þrátt fyrir að ég og Gústi værum að taka edrú helgina okkar langþráðu. Við kíktum fyrst í partý til Agga og þar var margt um manninn og mjög gaman. Við blótuðum því að vísu mikið að hafa gleymt myndavél en hún kemur bara með næst. Eftir partýið skellti liðið sér niðrí bæ og ég og Gústi vorum lengi að ákveða okkur hvort við ættum að nenna að fara á Shitstop (sem er uppnefni og réttnefni á staðnum Pitstop hér í bæ). Það endaði með því að við skelltum okkur og dönsuðum þar við Elvu og Láru alla nóttina! Það var rosalega skemmtilegt og ég var ekki kominn heim fyrr en um hálf sjö! Hélt aldrei að ég myndi endast svona lengi án þess að vera í glasi. Þetta var frábært kvöld.

Í gær var svo búið að plana að halda vídjókvöld og það gerðum við sko með pompi og prakt! Það kom alveg fulllt af fólki í heimsókn og við borðuðum ógrynni að poppi og snakki og gosi og horfðum á þrjár bíómyndir! Það var alveg frábært kvöld líka og við ætlum sko pottþétt að gera þetta aftur mjög fljótlega. Þannig að þetta var mikil sukk-helgi þrátt fyrir að hafa ekki bragðað deigan dropa af áfengi. Næstu helgi er hinsvegar hrekkjavaka og plönuð nokkur partý, ótrúlegt hvað Íslendingar eru duglegir að halda partý alltafhreint. En það var svo gaman að djamma edrú að það verður pottþétt fastur liður í mínu lífi héðan af.

Á morgun byrjar svo nýtt verkefni í skólanum og í þetta skiptið fáum við að velja sjálf hópana. Spurning hvernig það fer allt saman. Líka mjög forvitnilegt að sjá hvað verkefnið verður því við munum vinna að því í átta vikur hvorki meira né minna! Fyrst bara smá með skólanum því við verðum í tímum líka en eftir mánuð verða engir tímar og við einbeitum okkur bara að þessu stóra verkefni. Það styttist líka á hverjum degi í að maður komi heim og ég held að það sé málið að fara hugsa um árlega JólaTaðinn sem verður haldinn rétt fyrir jól að venju. Það var skuggalega gaman í fyrra og planið er að toppa allt sem á undan hefur farið hvort sem það var AmmælisTaður eða PáskaTaður eða JólaTaður eða hvað! Takið frá restina af árinu til að jafna ykkur þið sem mætið, þið vitið hver þið eruð... ;) Over and out,
Magchen in sober action.

föstudagur, október 22, 2004


Olíumálverk eftir mig
Enn önnur helgi

Þrátt fyrir að í gær var mánudagur þá er kominn föstudagur. Svona er lífið í Danmörku. Svolítið erfitt að venjast þessu, ég er farinn að sakna hinna daganna svolítið, en þetta hefur nú líka sína kosti. Það er svo rosalega oft helgi. Að sjálfsögðu eru plönuð partý hér og þar, en stærsta partýið verður hérna í íbúðinni okkar á Knud Hansensvej alla helgina! Það verður horft á bíómyndir og þætti og spilað og borðaður góður matur og nammi og ís! Sem sagt ekkert fyllerí enda er maður búinn að fá sinn skammt af því undanfarnar helgar með helgarferð til Köben og þegar strákarnir komu í heimsókn og svona. Við erum að spá í að bjóða öllum þeim með okkur sem nenna ekki að hafa áfengi um hönd þessa helgina með okkur, halda jafnvel matarboð á morgun ef það verður stemmning fyrir því. :) Þetta verður vonandi gaman og endurtekið reglulega því við erum svoddan reglumanneskjur. Vonandi verður helgin góð hjá ykkur! Kveðja frá Kolding,
Magnús.

fimmtudagur, október 21, 2004


Traffík í Köben
Kaupmannahöfn

Það er alltaf gaman að koma til Kaupmannahafnar. Síðasta helgi var engin undantekning! Ég og Jómbi fórum þangað og máluðum bæinn rauðan. Við hittum vini okkar og kíktum í heimsókn til þeirra og með þeim á djammið. Ég þakka Björk og Sigrúnu kærlega fyrir gestrisnina. Ég ákvað að leyfa myndunum að segja sögu helgarinnar í stað þess að þylja upp hvað við gerðum. Einhver sagði að ein mynd segði meira en þúsund orð og ef það er satt er ég sko búinn að segja ansi mikið um þessa helgi! Þetta var góður endir á haustfríinu.

Skólinn byrjaði semsagt aftur á mánudaginn og það þýðir að við erum að mæta aftur í tíma á morgnanna og fram að hádegi. Það er bara mjög fínt enda eru fögin sem við erum í áhugaverð. Við erum komin með einn nýjan kennara, í Communication, og er hann mun betri en sá gamli og ég hlakka til að sjá hvort hann geti ekki komið þessu annars skemmtilega efni betur til skila.

Á morgun höldum við kynningu á ICHI-heimasíðunni sem við gerðum í síðasta verkefni fyrir fólkið frá B-Young fyrirtækinu. Það verður eflaust staðið upp og klappað fyrir okkur í hálftíma eftir þessa 5 mínútna kynningu og okkur boðin launahá staða í margmiðlunargeiranum sem við þurfum að afþakka með láði því við viljum auðvitað klára skólann fyrst. Nei, annars er ég bara þokkalega bjartsýnn á þetta enda skiluðum við inn mjög góðu verkefni.

Jómbi var svo sniðugur að fá lánað hjól í Köben á laugardagskvöldið og þar sem dauðaleit að eiganda þess um alla Kaupmannahöfn bara engan árangur þá ákvað ég að ættleiða hjólið. Ég er semsagt orðinn hjólandi maður hér í Kolding! Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma því hingað til Kolding. Elva vinkona Rebekku og sambýlingur okkar þessa dagana var að flytja frá Köben til Kolding og ég hjálpaði henni að koma þessum sjö ferðatöskum eða hvað það var og hjólinu hennar ásamt spánýja hjólinu mínu í lestina og útúr henni aftur. Á leiðinni inní lestina lokaðist hurðin á okkur og ég þurfti að halda henni opinni á meðan Elva henti inn síðustu töskunum og stökk sjálf inn! Svo var vesen að koma hjólunum fyrir en það gekk á endanum og við þurftum að sitja á töskunum alla leiðina til Kolding, í tvo og hálfan tíma. Þegar við nálguðumst Kolding var svo troðfullt af fólki í lestinni að við héldum að við kæmumst aldrei út úr lestinni með allt þetta dót á þessum stutta tíma sem lestin stoppar á hverjum stað! En það hafðist einhvernvegin á ótrúlega skömmum tíma með hjálp nokkurra miskunsamra samverja sem voru með okkur í lestinni. Danir eru mjög hjálpsamir upp til hópa. :)
Magnús.

mánudagur, október 18, 2004


Helgin sem leið (myndir)

föstudagur, október 15, 2004

Kóngsins Köbenhavn

Það er nú frekar lélegt að búa í Danmörku og kunna ekki að gera danskt ö á lyklaborðið sitt. En það breytir því ekki að ég er að fara til Kaupmannahafnar á morgun með Jómba. Við ætlum að gista hjá Björk og Sigrúnu eins og ég hef áður sagt. Því verður ekki bloggað um helgina en eftir helgina, ef ég verð duglegur að taka myndir, þá mun ég setja inn myndir frá helginni. Það er gaman að því að setja inn myndir og ég ætla að halda áfram að vera duglegur í þeim efnum fram eftir vetri.

Í gær fór ég í afmæli til Hilmars og það var mjög gaman. Að vísu eru nokkuð margir farnir úr bænum og því var ekki jafn fjölmennt og hefði getað verið en að sjálfsögðu var mjög góðmennt.

Núna er ég að horfa á tónleika með Jóni Ólafssyni í beinni útsendingu af tonlist.is sem Einar Þ. benti mér á. Þetta er tónleikasería og verður á hverjum fimmtudegi fram að áramótum. Endilega kíkið á þetta, næstur í röðinni er Bubbi sem spilar næsta fimmtudag! Gaman að hafa smá tónlistar-tengingu heim enda var maður duglegur að fara á tónleika heima á Íslandi en gerir ekki jafn mikið af því hér í DK því miður. Heyrumst eftir helgi!
Magnús.

þriðjudagur, október 12, 2004


Gengið sem kom í heimsókn
Mögnuð helgi!

Þetta var ekkert smá skemmtileg heimsókn! Jói og Kristjana komu frá Horsens og Andrés og Jómbi komu frá Íslandi og við skemmtum okkur alveg konunglega saman í þrjá daga. Núna erum við (ég, Jómbi, Jói og Kristjana) komin til Horsens en Andrés fór aftur til Íslands í gær.

Ég er búinn að setja inn myndir frá heimsókninni. Fyrstu myndirnar eru að vísu úr skólanum mínum, ég hélt að það hefðu kannski einhverjir gaman af því að sjá skólann minn. Myndirnar eru hérna.

Núna á fimmtudagskvöldið förum ég og Jómbi, og kannski líka Jói og Kristjana, til Köben og gistum hjá Björk og Sigrúnu. Þar verður líka fullt af krökkum sem eru með mér í skóla og aldrei að vita nema að við hittum þau. Svo verður Savbbi í heimsókn hjá Elísabetu Leifs og auðvitað hittum við þau líka! Þetta verður eflaust ekki síðri helgi en sú sem er nýliðin.
Maggi.

föstudagur, október 08, 2004

Anderson Mojo & Stony McGee

Þá er ICHI verkefninu lokið! Í bili að minnsta kosti. Við þurfum að kynna það sem við gerðum fyrir fyrirtækinu eftir tvær vikur. En þangað til þá er frííí! JAY! Og fríið byrjar sko ekki leiðinlega. Jói og Kristjana (sem btw eru farin að blogga hérna) koma til okkar klukkan þrjú í dag og svo koma Andrés og Jómbi í kvöld og beint í partý hjá vinkonum okkar hérna í miðbæ Kolding! Það verður gaman hjá okkur.

Ég sagði að ég myndi setja lokaútgáfuna af síðunni okkar á netið og ég stóð við það. Þið getið skoðað síðuna sem við gerðum hérna! Vonandi eiga allir góða helgi (er ekki bannað að segja þetta svona?), ég veit að hún verður frábær hérna í Kolding. ;)
Maggi.

fimmtudagur, október 07, 2004


Hmmm...
Verkefnaskil og frí!!

Á morgun eigum við að skila af okkur ICHI verkefninu sem við höfum verið að vinna að síðustu þrjár vikur. Það verður nokkkuð gott að klára þetta þótt þetta hafi nú verið ólíkt skemmtilegra og áhugaverðara verkefni heldur en það síðasta. Ég set inn link á morgun á lokaútgáfu heimasíðunnar sem við skilum inn. Þetta hefur bara gengið mjög vel og við höfum eiginlega fleiri hugmyndir um hvernig á að framkvæma þetta og hvernig við gætum heillað B-Young fólkið heldur en við getum framkvæmt. En þetta er mjög flott og ég er ánægður með árangurinn.

Næsta vika er svo haustfríið okkar og ég hætti við að fara til Svíþjóðar þegar strákarnir ákváðu að kíkja í heimsókn. Andrés og Jómbi koma til Danmerkur á morgun og Jói og Kristjana sem eiga heima í Horsens koma hingað til Kolding til að hitta strákana. Þetta verður eflaust rosalega gaman allt saman. Það er innflutningspartý á morgun (hjá Láru, Heklu, Rósu og Snorra fyrir þá sem þekkja til) og við kíkjum eflaust á þau og skoðum nýju íbúðina. Ég er alveg að missa af strætó þannig að ég skrifa bara meira seinna. Kvejða,
Maggi.

miðvikudagur, október 06, 2004


Blomst
Sófaborð

Við eigum sófaborð! Júhúúú! Þvílík hamingja. Þið vitið hvað matur er miklu betri ef maður eldar hann sjálfur? Ég og Rebekka vorum að komast að því að sófaborð eru miklu fallegri og betri ef maður streðar rosalega mikið við að koma þeim heim til sín. Þar sem við erum að fá fullt af fólki í heimsókn næstu helgi þá þótti okkur ómögulegt að vera ekki með almennilegt sófaborð og fórum því á stúfana eftir skóla í gær. Við fundum þetta líka glæsilega ódýra sófaborð í Biva, og ekki nóg með það því það smellpassaði líka við öll húsgögnin í stofunni okkar. Við tímdum samt ekki að borga 150 kr. fyrir að láta senda það heim heldur ákváðum að taka það bara með okkur í strætó og spara okkur peninginn þrátt fyrir að borðið væri rúmt tonn á þyngd.

Við bröltum með þetta út úr húsgagnaversluninni og út að næstu stoppistöð sem var við hliðina á versluninni. En auðvitað stoppaði fimman ekki þar sem gengur beint heim til okkar. Því þruftum við að bera þennan stóra ólögulega nýðþunga kassa (það átti auðvitað eftir að setja borðið saman) á milli okkar nokkur hundruð metra, yfir risa umferðargötu, og að stoppistöð þar sem fimman stoppaði. Við bárum okkur frekar illa eftir þessa áreynslu og ímynduðum okkur að allir íbúar Kolding væru hlægjandi að okkur í bílum sínum, en þökkuðum fyrir að vesenið væri búið. En nei nei, auðvitað vorum við of fljót að hrósa happi. Þegar strætó kom loksins bannaði bílstjórinn okkur að koma með! Þetta var einhver kellingarálft sem er búin að keyra strætó allt of lengi og það var ekki sjens að þræta við hana, það væri of hættulegt að fara með þetta inní strætóinn! Þannig að strætó keyrði öruggur í burtu og við stóðum eftir með sófaborðið stórhættulega.

Við ákváðum loks að hringja á leigubílastöðina og þeir voru svo vænir að senda okkur viðkunnanlega kellingu á langbak sem skutlaði okkur heim og tók fyrir það 125 kr. danskar. Þannig að við spöruðum okkur bara 25 kall á þessu ævintýri og vorum með harðsperrur í dag eftir þessa kraftagöngu. En við settum saman sófaborðið og það sómir sér alveg ótrúlega vel í stofunni okkar! :)
Magnús.

mánudagur, október 04, 2004


ICHI vefsíðan okkar
Sunday happy sunday

Þessi dagur var yndislegur. Við gerðum næstum ekki neitt og leiddist samt ekki í eina mínútu! Þannig eiga sunnudagar að vera. Við fórum bara að horfa á vídjó þegar við vöknuðum og svo eldaði Gústi handa okkur pasta (mikið þarfaþing að hafa kokk í heimsókn á heimilinu á sunnudags eftirmiðdögum) og við slöppuðum af fram eftir degi. Eftir tvær bíómyndir og nokkra Cribs á MTV og ég veit ekki hvað og hvað þá fór ég og þvoði af mér spjörurnar og á meðan þær voru að malla útí þvottahúsi þá hélt ég áfram að kóða síðuna okkar fyrir ICHI verkefnið.

Ég ákvað að setja smá sýnishorn af því sem við erum að gera með þessari færslu þannig að ef þú smellir á myndina færðu að sjá hvernig forsíðan í verkefninu okkar mun nokkurnvegin líta út. Ég er mjög ánægður með þetta og eftir að Þolli setti þetta svona listavel upp í Photoshop þá tókst mér að kóða þetta nokkuð vel þannig að útkoman er næstum því alveg eins og fyrirmyndin. Svo er nottla nauðsyn í þessu námi að hafa allt fullkomið þannig að maður þarf að validata kóðann sem maður gerir þannig að það má ekki vera ein pínu ponsu villa í kóðanum en þetta gekk allt upp hjá mér og ég fékk grænt ljós hjá validatornum. :)

En allavega, eftir að ég var búinn að þvo og Rebekka hætt að vinna í nýju heimasíðunni sinni (við bíðum öll spennt) þá röltum við niður í bæ (já ég sagði röltum! ég tók ekki strætó í þetta skiptið ótrúlegt en satt). Þar hittum við krakkana hjá Gústa (en ekki hvar?!) og fengum að borða og lékum okkur í tölvunum og spjölluðum fram á nótt. Ég hjálpaði Steinunni að setja inn myndir sem þið hafið kannski gaman af að skoða. Svo var ég skammaður fyrir að vera ekki búinn að setja link á síðuna hennar Rebekku og það er nottla skömm að því en núna er ég búinn að bæta úr því! :D

Það var mjög gaman á föstudaginn þótt við fengjum ekki að horfa á stuttmyndirnar sem var búið að lofa okkur og ég var mikið búinn að hlakka til að sjá. Eftir partýið uppí skóla fór hersingin niður í bæ og þar var dansað langt fram á morgun. Í gærkvöldi (lau) þá kíkti ég í diskókeilu með krökkunum og það var virkilega skemmtilegt. Við verðum að gera það aftur einn daginn þótt keilan sé í sjálfu sér aukaatriði. Það snýst bara um að skemmta sjálfum sér og öðrum.

Þannig að þetta er semsagt búin að vera frábær helgi eins og þær flestar. Næsta helgi verður sko alls engu síðri því þá koma strákarnir í heimsókn og það verður sko þvílíkt fjör! En núna ætla ég að fara að halla mér og mæta hress í skólann á morgun og vinna áfram í verkefninu okkar. Finnst ykkur þetta annars ekki koma bara vel út hjá okkur? Kvejða frá Kolding,
Maggi.

föstudagur, október 01, 2004


Geitungur í Trapholti
Studiestart

Það var mjög gaman í gær en þá hélt Koldingbær svokallað Studiestart fyrir alla nýja nemendur hér í Kolding. Það voru nemendur úr fjórum skólum sem tóku þátt og var ýmislegt gert til að kynna bæinn fyrir okkur nýnemunum. Dagurinn byrjaði í Koldinghus en það er líklegast frægasta mannvirki í Kolding. Að vísu kann ég ekki sögu þess enda þótti mér aðeins of gott að sofa og missti því af þessum fyrsta hluta dagsins. Næst var haldin róðarkeppni milli skólanna og það var hörku spennandi. NoMA lenti í öðru sæti en við hefðum átt að vinna! Sætið í bátnum bilaði í fyrstu umferðinni og það kostaði okkur titilinn. Ég tók ekki þátt að vísu en ég hvatti þau áfram af miklum móð. :)

Eftir að við fengum að borða og róðrarkeppnin var búin var okkur smalað uppí rútu og við fórum í Trapholt sem er listasafn rétt fyrir utan bæinn. Þar var mikið af flott hönnuðum húsgögnum og frekar nútímalegri list. Ég tók sjálfur smá arty flipp fyrir utan safnið og tók fullt af myndum af geitungum og blómum, sumar nokkuð góðar. Eftir Trapholt fórum við svo í sund sem var langþráð hjá mér enda hef ég ekki komið mér af stað ennþá og farið að synda eins og ég ætti að gera. Þeir eiga mjög flotta sundhöll hérna í Kolding en það kostar líka nógu mikið að fara í sund. 45 kr. danskar sem er fimmhundruð íslenskar! Það er heldur mikið fyrir fátækan námsmann. Mánaðarkort kostar þrjúþúsund íslenskar og það er spurning hvort ég skelli mér á eitt svoleiðis fljótlega. En það var mjög gaman í sundi þrátt fyrir mikla vöntun á heitum pottum. Það var einn pínulítill nuddpottur og þá má vera í honum í 10 mínútur í senn en þess á milli þarf að leyfa honum að hreinsa sig kortér! Alveg fáránlegt finnst mér, bæði að hafa bara einn pott og að banna fólki að vera í honum meirihluta dagsins.

Við ákváðum svo að fara út að borða saman hópurinn sem tók þátt í þessum degi frá NoMA og fyrst það var fullt á Jensens Bøfhus fórum við á ágætan ítalskan stað. Eftir að þjónninn hafði komið með súpu til mín sem ég bað ekkert um gerðu þeir loksins hálfmánann sem ég hafði beðið um og allir voru ánægðir með matinn. Eftir það drifum við okkur svo á Godset sem er aðal tónleikastaðurinn hér í bæ, en þar voru tvennir tónleikar í sambandi við þennan Studiestart dag. Þeir fyrri voru mjög góðir, hljómsveit sem ég held að heiti Dicta, og með ótrúlega hæfileikaríkri söngkonu. Hún var með rosalega töff ráma rödd og söng blús og rokk og allt heila klabbið og klikkaði ekki einu sinni. Hún spilaði líka til skiptis á kassagítar og rafmagnsgítar og var bara þvílíkt töff rokk-gella. :)

Seinni tónleikarnir voru ekki að fara vel í mannskapinn, einhver frekar slöpp dönsk strákasveit, og því fór mannskapurinn á Knuds Garage sem er vinsæll viðkomustaður hjá NoMA krökkum. Hann var pakkaður eins og alla fimmtudaga og fín stemmning. Ég var þó ekki að drekka og fór frekar snemma heim enda mikið um að vera í kvöld (föstudag). Annars árs nemendur eru nefnilega að bjóða nýnemana velkomna í skólann og bjóða okkur flottan mat og skemmtiatriði og svo verður haldið niður í bæ á skrallið.

Ég tók alveg fullt af myndum í gær og er búinn að setja þær á netið hérna! Vonandi hafiði gaman að því. Kveðja,
Magnús.

þriðjudagur, september 28, 2004

Smelltu til að sjá alla myndina!
Meira graffiti!

Þetta tók á...

Ég var voða ánægður áðan að mér tókst að birta myndir með færslunni með því að bæta við smá CSS kóða en ég prófaði útkomuna bara í FireFox vafranum en ekki Internet Explorer. En það virkaði nottla ekki þar og það tók mig tvo klukkutíma að komast að því hvað vandamálið var. En það leystist að lokum og ég mun (vonandi) ekki gera sömu mistök aftur! En nóg um leiðinleg tæknivandræði á blogginu mínu. [Og já fyrir þá sem virkilega vilja vita það þá var lexían sem ég lærði að ef maður ætlar að birta hlut ofaná öðrum hlut í CSS með því að nota z-index (sama hvort hann er 'class' eða 'id') þá verður hann að vera 'position:relative;' til að það virki í I.E. en það virkar samt fínt í öðrum vöfrum.]

Annars er ég bara hress! Strákarnir sem eru með mér í hóp kíktu til mín í dag og við unnum að hönnun vefjarins nýja fyrir ICHI. Á morgun ætlum við að hittast aftur, að vísu heima hjá Þolla (sem er by-the-way að selja playmo-kalla-boli á blogginu sínu!), og vonandi kemst þetta þá á gott skrið hjá okkur.

Ég horfði á Collateral með Tom Cruise í kvöld sem er alveg hreint ágætis mynd. Ég er nú ekki búinn að vera mjög dulegur að horfa á bíómyndir, nóg annað að gera. Að vísu þá er alveg merkilegt hvað maður hefur mikinn tíma eitthvað því það er ekkert lengur sem heitir að fara á rúntinn því maður er ekki með bíl. Maður fer aldrei í bíó því það er langt í burtu (og maður er ekki með bíl) og þeir sýna hvort eð er svo gamlar myndir. Maður getur varla horft á neitt af sjónvarpsstöðvunum þótt þær séu um fjörtíu talsins því meira en helmingurinn af þeim er döbbaður á þýsku og næstum allar aðrar eru bara með rusl hvort eð er. Þannig að maður eyðir frítímanum á netinu eða í að horfa á eitthvað sem maður hefur sótt á netinu. Því er ég búinn að sjá alla þrjá Joey þættina sem er búið að sína í USA (og þeir eru bara mjög fyndnir finnst mér) og líka allt nýjasta Scrubs og That 70's Show og svona. :) En allavega, góða nótt.
Maggi.

E.s: Já ef þið smellið á litlu myndina sem ég set með færslunum þá færðu að sjá alla myndina! En þið eruð nottla svo klár að þið voruð löngu búin að fatta það. Og ég mun aðallega setja myndir sem ég tek sjálfur, það er nottla miklu skemmtilegra! :)

mánudagur, september 27, 2004


Graffiti í Kolding
Tilraunastarfsemi

Ég er bara að leika mér aðeins með hvernig ég get sett inn myndir með færslunum mínum. Búinn að vera að lesa mér meira til um CSS og hvernig það hegðar sér. Það er nú samt alltaf skemmtilegast að fikta sig bara áfram en það er líka mjög hjálpsamt að lesa tutorials á netinu. (Hmmm... hvað er tutorial á íslensku?) Anyhoo, við sjáum til hvernig gengur.

Annars væri nú ekkert vitlaust að hafa nægan texta í þessari færslu til að mydnin kæmist nú alveg skikkanlega fyrir. Þannig að það sem þú ert að lesa núna er bara algjörlega innantómt þvaður bara svo að myndin fái að njóta sín betur. Munurinn á þessu þvaðri og því sem er venjulega í þessum færslum er nú samt lítill. Þetta þvaður er þó ekki að þykjast vera eitthvað sem það er ekki. Jæja, gáum hvort þetta sé nóg bull svo tígrisdýrið taki sig vel út umvafið texta.
MSJ.

föstudagur, september 24, 2004

Hvílík ofvirkni!

Þegar maður fær nýja tölvu og frábæra nettengingu þá endar það með því að maður drattast til að setja inn þessar myndir sem maður er búinn að vera að taka. Ég er semsagt búinn að setja inn nýjan skammt af myndum og það kemur meira fljótlega. Best er að skoða þetta í fullscreen og þá smelliru á 'F11' takkann þegar þú er komin/n á síðuna! Fyrir þá sem voru ekki búnir að sjá færsluna hér á undan þá er fyrsti skammturinn hérna, og sá sem ég var að setja inn er kominn hingað! Vííí!:þ
Maggi.
Say Cheese!!

Jæja þá eru komnar myndir af fyrstu dögunum hérna í Kolding. Þetta eru fyrstu þrír dagarnir og það er nóg til af myndum enn, þetta er bara byrjunin. Fyrsti skammturinn er semsagt hérna! Ég mun henda inn fleiri myndum fljótlega. Og ég vill þakka Gústa kærlega fyrir plássið á servernum! :D
Maggi.
SKYPE ROKKAR!

Núna í kvöld uppgötvaði ég fyrir alvöru hvað Skype er mikið snilldarforrit. Ég talaði við pabba, Höllu systur, Bigga mág og (eftir dúk og disk) Fjólu systur, öll í einu! Og eftir það talaði ég líka við mömmu! Ok, það eru kannski ekki sömu gæði eins og þegar maður talar í símann, en þetta er ókeypis! Algjör snilld get ég sko sagt þér. Nenni ekki að skrifa meira, ég er svo þreyttur, ég þarf nauðsynlega að fara að sofa...
Magggggzzzzzzzz.....

þriðjudagur, september 21, 2004

Les Visiteurs

Það er allt að skýrast með heimsóknir á næstu vikum. Andrés, Biggi og Jómbi koma áttunda október og verða yfir helgina og Jómbi aðeins lengur líklegast. Svo kemur Svabbi til Köben helgina eftir það og maður kíkir kannski á hann. Þorlákur er svo að spá í að koma mánaðamótin okt-nóv. Sjálfur er ég að fara í heimsókn til Svíþjóðar að hitta Ceciliu og Lindu (sem ég og Biggi kynntumst í heimsreisunni) og ég býst við að ég fari á undan þessari heimsóknatörn, s.s. fyrstu helgina í október.

Annars gekk bara ágætlega hjá okkur í verkefnavinnunni í dag. Við erum komnir með þrusugóða hugmynd og ætlum að vinna mikið að því að hún verði að veruleika því það gæti reynst svolítið snúið. Vonandi heppnast það allt saman. Á morgun hittum við fólk frá B-Young og fáum að spyrja þau spjörunum úr.

Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ég gæti ekki nýtt tenginguna mína sem skildi, sem sagt í að dánlóda gríðarlegu magni af þáttum og bíómyndum og tónlist, en það reddaðist allt í gær þegar ég var kynntur fyrir BitTorrent. Það er helvíti sniðugt og eflaust kol-ólöglegt forrit sem þrusuvirkar. Í gegnum það getur maður sótt allt ofantalið í miklu magni en fáir nota það heima því fæstir eru með ótakmarkað utanlandsdánlód. Híhíhí. Hmmm... Ætti maður að fara að flokka myndir til að setja á netið...
Maggi.

mánudagur, september 20, 2004

ICHI og Skype

Í dag fengum við nýtt verkefni í skólanum. Það er á þá leið að við eigum að gera nýja heimasíðu fyrir ICHI fatamerkið. Þetta er í eigu B-Young sem er töluvert þekktara merki og er meira að segja héðan úr Kolding! ICHI er fyrir yngri markhóp heldur en B-Young, unglingsstelpur uppí rúmlega tvítugt. Kennararnir voru svo sniðugir að þeir kynjaskiptu hópunum þannig að allir strákarnir þurfa að hanna síðu með stelpur í huga (sem gæti reynst erfitt) og stelpurnar þurfa að spjara sig í að forrita síðuna en fæstar þeirra eru orðnar sleipar í því. Þetta verður því eitthvað áhugavert.

Ég er að vísu kominn með mjög góða hugmynd (að mínu mati) og búinn að bera hana undir Fjólu systur og fékk 'thumbs up' frá henni! Núna er bara að reyna að sannfæra strákana sem erum með mér í hóp um að það sé besta hugmyndin. Ég er í mjög fínum hóp, með tveimur Íslendingum sem heita Bjarni og Þolli og einum Kínverja (sem leggur að vísu lítið til málanna). En ég held að þetta verði fínt og það verður örugglega gaman að vinna að þessu verkefni.

Ég var að prófa Skype í fyrsta skipti áðan og mæli með því að fólk fái sér þetta ágæta forrit, sérstaklega ef það þekkir einhvern sem býr í útlöndum! Hint hint. Með því getur maður semsagt talað við fólk útum allan heim án þess að borga nokkuð fyrir það svo lengi sem fólkið er með internetið! Mjög sniðugt og er svosem búið að vera hægt lengi en fólk er eitthvað tregt til að nýta sér þetta. Um að gera að breyta því!
Magnús.

sunnudagur, september 19, 2004

Yosta and da G5!

Gústi vinur mig á Teglgårdsvej er alveg yfir sig hrifinn af myndavélinni minni og það er auðvitað skiljanlegt, hún er aðgjör snilld! Hún er búin að vera í heimsókn hérna hjá Gústa í rúma vikur og búið að taka á hana alveg fullt af flottum myndum. Drengurinn tók sig til og gerði vídjó með myndunum og setti á netið! Þannig að ég þarf ekkert að hafa fyrir því að setja myndir á netið! Jú ég geri það nú fljótlega líka en þangað til þá getiði skoðað þessi snilldar vídjó sem hann gerði.

Þetta er fyrsta partýið sem myndavélin mættti í og svo vorum við með eitthvað svaka kerta-session og tókum fullt af myndum af kertum! Gústi gerði líka vídjó með myndunum sem ég tók þegar ég fór á rúntinn á Ferrari! Svo var aftur partý í gær en þá tók einhver myndavélina mína og hún endaði í einhverju hommalegu partý í blokkinni hérna en ég náði að bjarga henni þaðan áður en við fórum niður í bæ sem betur fer! En nærri því helmingurinn af myndunum í síðasta vídjóinu er úr þessu partýi.

Allir að skoða þessi vídjó og það koma eflaust fleiri á síðuna hans Gústa fljótlega. Annars er allt gott að frétta! Við erum á leiðinni út að borða, fjórtán manns hvorki meira né minna! Svo byrjar nýtt verkefni á morgun í skólanum á morgun og ég hlakka mikið til að sjá nýja hópinn minn. Já alveg rétt, við fengum fína umsögn um síðasta verkefni, við vorum alveg ágætlega sátt við það bara. Kannski set ég afraksturinn á netið seinna, aldrei að vita. Kveðja úr Danaveldi,
Maggi!

laugardagur, september 18, 2004

Jah

Bloggfóbía. Akkuru segi ég fóbía þegar ég meina æðí? Hehe, nei þetta er ekkert fyndið. Maður er allt of sjaldan online þegar maður er fullur!
Maggi.
High Five!

Ahhh.... Mér líður mjög vel. Ég er búinn að vera í chillinu í dag heima hjá Gústa (vini mínum úr NoMA) með lappann minn að fá hjá honum forrit og leika mér á netinu. Þetta er það sem lífið snýst um, að gera nokkurn veginn ekkert og láta sér líða vel.

Ég var vakinn í morgun þegar einhver dirfðist að hringja dyrabjöllunni hjá mér og fyrst Rebekka var (og er) uppí sveit þá varð ég að fara til dyra. En það kom mér skemmtilega á óvart að þar stóð gaur merktur TDC í bak og fyrir sem vildi ólmur fá að laga símalínuna mína! Hann prófaði allt sem honum datt í hug til að laga þetta en komst á endanum að þeirri niðurstöðu að það hlyti bara einhver að hafa eyðilagt aðal símasnúruna í veggnum þegar íbúðin var tekin í gegn og því þurfti hann að bora í gegnum vegg í stofunni til að komast að símakaplinum sem var úti. Honum tókst að laga þetta eftir dúk og disk og núna er komin internet tenging heima hjá mér í Danmörku! Woohoo!

Þetta þýðir að ég mun blogga meira og vera meira á MSN og að ég tali nú ekki um að vera meira í iSketch! Híhíhíhí, ég er nefnilega búinn að enduruppgötva ást mína á þessum skemmtilegasta netleik í heimi og spila hann alla daga. Hvet alla sem þetta lesa til að kynnast þessum leik eða í það minnsta að endurnýja kynni sín af honum því þetta er algjör snilld!

Ég á fullt af flottum myndum sem ég hef tekið hér í Danaveldi og mun vonandi nenna að setja eitthvað af þeim á netið til að þið getið nú fengið að sjá nýju vini mína og hvernig ég bý og svona. ;) Kær kveðja,
Magnús Sveinn.

föstudagur, september 17, 2004

Ný tölva í mínu lífi

Alltaf er gaman að komast í nýtt dót. Eins og ég talaði um í síðustu færslu hætti ég við Dell tölvuna og ákvað að fá mér tölvu sem kostar 50 þúsund kalli minna og gerir nokkurn vegin það sama. Það er meira að segja DVD-skrifari í þessari sem ég þurfti að sleppa í hinni því hann kostaði 15 þúsund kall! En þetta er semsagt Acer Aspire 1350 og var á tilboði í Bilka, sem er svona alltmuligt verslun um alla Danmörk.

Það er að vísu alveg ótrúlega mikið af svoleiðis verslunum, svona ofurstórmörkuðum sem selja allt milli himins og jarðar. Þrjár stærstu eru Bilka, Fötex og Fakta (sem er rétt hjá okkur). Svo er auðvitað Storcenter sem er Kringlan hér í Kolding. Storcenter er rétt hjá skólanum (5 mín ganga) og þar er alveg riiiisastór Bilka verslun. Þar keypti ég tölvuna mína nýju og DVD spilarann minn og alveg fullt af hlutum til heimilisins.

Ég komst í gær að því af hverju Internet tengingin okkar er búin að láta svona illa. Símalínan var biluð og því náðist ekkert signal! Ég er svoooo ánægður að hafa loksins áttað mig á þessu, ekki bara af því að núna get ég fengið tenginguna mína langþráðu, heldur af því að núna veit ég að það var ekki heimsku minni að kenna af hverju ég gat ekki sett upp þessa einföldu internet-tengingu. Það kemur (vonandi) einhver kall frá TDC (stærsta danska símafyrirtækinu) og ætlar að reyna að laga símatengin okkar (eða hvað það er sem er að þessu helvíti). Ég fæ því vonandi tenginguna fyrir helgina. (fingers crossed)

Nú er að koma helgi og aldrei þessu vant er ekkert planað. Ég hef þó engar áhyggjur af þessu, það mun eflaust eitthvað skemmtilegt koma uppá eins og undanfarnar helgar og ef það gerir það ekki þá lætur maður bara eitthvað gerast! Það er nefnilega engin heimavinna um helgina því við vorum að klára þriggja vikna verkefni og byrjum á nýju á mánudaginn. Ég er einmitt að fara að fá kampavín (býst nú við því að það sé nú bara bjór) og fá umsögnina um síðuna okkar. (meira fingers crossed). Þangað til næst! :)
Maggi.

miðvikudagur, september 15, 2004

Ísland er lítið land...

Ég lenti í ótrúlega fyndnu atviki á sunnudaginn. Ég var bara heima í mestu makindum (þynnka + sjónvarp) og fékk mjög skrítið SMS. Þar var ég spurður hvort ég hefði verið staddur í utandyra house partýi klæddur í kjól og með sjal viku áður en ég flutti til Danmerkur. Eins skrítið og þetta hljómar þá er þetta akkúrat það sem gerðist! Ég fór í partý til vinkonu minnar viku áður en ég flutti út, og það breyttist í furðufatapartý og ég fór í alveg forljótan kjól, setti á mig hatt og sjal og við fórum svoleiðis á djammið. Ég var líka í því að draga fólk inn til að velja sér föt og á sunnudaginn uppgötvaðist að ein af stelpunum sem er með mér hérna í bekk hérna úti var í þessu partýi! Ég talaði meira að segja við hana og lét hana fara í forljóta bleika blússu! Ég mundi ekkert eftir henni þegar skólinn byrjaði og hún ekki nógu mikið eftir mér til að fatta að ég hafi verið sami gaurinn. Þetta er ótrúlega tilviljun finnst mér. Og sýnir vel hvað ég er mannglöggur eða þannig að hafa ekki þekkt hana aftur viku seinna þegar við hittumst svo í skólanum. (Og nei, ég var ekki mjög fullur því þetta var frekar snemma um kvöldið þegar við vorum að dressa okkur upp...)

Ég hætti skyndilega við tölvukaup um daginn. Ég ákvað að sleppa því að fá mér eitthvað voða merki og ákvað að kaupa mér bara ódýra tölvu sem er næstum alveg jafn góð. Ég sparaði mér rúmlega 50 þúsund kall og fékk DVD skrifara að auki! Þannig að ég er sáttur. Fátækir námsmenn verða líka að læra að spara. Ég er að fara að sækja tölvuna núna eftir hálftíma og ætla að reyna að koma henni í netsamband í kvöld. :)

Loksins tókst mér að ná í skottið á húsverðinum okkar þannig að hann gæti selt mér kort sem virkar í sameiginlega þvottahúsið. Ég hef ekkert náð að þvo síðan ég kom hérna út og það er allt orðið skítugt og ég hef þurft að þvo í höndunum tvisvar. En ég fékk kortið loksins í morgun og get því farið þvo allt sem ég á!

Það er annars bara allt gott að frétta, fyrsta stóra verkefnið er að klárast í skólanum og það er sýning núna á föstudaginn þar sem við sýnum allt sem við gerðum. Þetta verkefni fjallar um Max Havelaar sem er stofnun sem hjálpar bændum og vinnufólki í fátækum löndum og veitir þeim gott aðgengi á markaði hér í Evrópu og tryggir að þau fái mannsæmandi laun. Við áttum að gera heimasíðu til að kynna nýja merkið þeirra fyrir aldurshópinn 18-25 ára. Þetta gekk alveg ágætlega hjá okkur en það verður gott að komast í nýtt verkefni. Það byrjar strax á mánudaginn! Þá verða engar kennslustundir heldur eyðum við öllum okkar tíma í verkefnið. Það verður spennandi og vonandi krefjandi.

Og fyrir þá sem halda að ég eyði ekki nægum tíma í námið hérna úti þá fengum við úrlausnir úr fyrstu prófunum okkar í dag og ég var einn af fjórum efstu í árganginum. Það ættu allir að vera sáttir við þá útkomu held ég. :) Þetta voru ekki próf sem gilda til einkunnar heldur bara til að sjá hvar við stöndum í námsefninu og ég stóð mig bara ágætlega í þessu. Ég er búinn að horfa mjög mikið á Malcolm in the Middle og það hefur kannski hjálpað mér. :) Bið að heilsa öllum heima sem ekki lesa bloggið! Kveðja,
Maggi.

fimmtudagur, september 09, 2004

In the glass house...

Í skólanum mínum er allt úr gleri. Einn "veggur" í hverri kennslustofu er úr gleri þannig að það sést inn í allar stofurnar úr tölvuverinu. Innan um allar stofurnar eru nefnilega tölvur til afnota fyrir nemendur margmiðlunardeildarinnar. Þetta er svokallað "opið lærdómsumhverfi". Það er svosem ágætt því þá týnir maður aldrei bekknum sínum. Ef maður veit ekki hvar maður á að vera (sem er oftar en ekki því stundaskráin breytist í hverri viku) þá getur maður bara kíkt inn í allar stofurnar og gáð hvort maður sjái ekki bekkinn sinn einhverstaðar. Þetta getur líka verið pirrandi því það er oft eitthvað fyrir utan stofuna sem fangar athygli manns og maður missir af einhverju sem kennarinn sagði.

Tölvukosturninn hérna mætti vera betri. Tölvurnar eru svosem ágætar en ég fæ hausverk í hvert skipti sem ég sit lengur en kortér við tölvuskjá hérna því þeir eru ekki nema 60 Hz og það er ekki nóg. Sumir koma með fartölvuna sína í skólann og tengjast við netið með því að stela netkapli úr einni af borðtölvunum í tölvuverinu. En þetta stendur allt saman til bóta. Það er að koma þráðlaust net í skólann (hefur maður heyrt amk) og ég er búinn að kaupa mér fartölvu! Já ég nennti þessu brasi ekki lengur og pantaði mér Inspiron 8600C vél á Dell.dk í fyrradag. Ég fæ hana senda í næstu viku. Svo fengum við nettengingu heim í gær, 2 MB, þráðlaust, ótakmarkað niðurhal bæði erlent og innlent. Ekki slæmt það, nema það að mér tókst ekki að setja það upp í gær og ætla því að fá einhvern tölvusnilling hérna í skólanum til að kíkja í heimsókn og redda þessu.

Það er allt gott að frétta. Ég fór í grillveislu á þriðjudaginn og það var mjög gaman, eiginlega of gaman því það endaði í einhverju skralli niður í bæ. Við lögðum undir okkur heilan bar og sungum hástöfum með gítarundirspili eins og Íslendingum er einum lagið. Á morgun er svo enn stærri grillveisla í einum af mörgum görðum bæjarins og það verður eflaust hátíð sem endist langt fram á næsta dag. Maður er því ekkert að drukkna í skólaverkefnum heldur man alveg eftir því að skemmta sér inná milli. Veðrið er líka búið að vera alveg frábært undanfarna daga og það spillir ekki fyrir.

Þegar ég fæ fartölvuna mína nýju flottu er ekkert því til fyrirstöðu að ég setji inn myndir, og þá verð ég töluvert oftar á MSN ef einhver þarf að ná í mig eða bara til að spjalla. Kveðja frá Danmörku,
Magnús.

föstudagur, september 03, 2004

Danaveldi í öllu sínu veldi

Það er bara helvíti fínt að búa í Danmörku. Veðrið (ég er nottla ennþá Íslendingur þannig að ég er skuldbundinn að tala um veðrið) er búið að vera frekar skítt síðan við komum út eins og reyndar í allt sumar hérna í Danmörku. Rigning uppá hvern einasta dag, en aldrei samfleytt í heilan dag því það er oft sólskin þar á milli. Voða skrítið eitthvað. Maður kannast kannski við þetta að heiman en ekki margar vikur í röð.

Í þessari viku er ég búinn að vera voða duglegur að hreyfa mig því það eru alltaf einhverjir að hittast til að spila hinar og þessar íþróttir. Á miðvikudaginn fór ég í fótbolta, í gær fór ég í körfubolta, og á eftir fer ég í Beach-Volley! Strandblak er (eins skringilega og það hljómar) vinsælasta íþróttin í skólanum og það er bara alveg þrusu gaman að spila! Við spilum nú ekki tveir á tvo eins og á ólympíuleikunum heldur eru fjórir (eða fjögur) í liði og alltaf mikil stemmning.

Skólinn gengur bara vel. Við erum byrjuð á fyrsta verkefninu og það gengur alveg ágætlega. Öll verkefnin hérna eru gerð í hópvinnu og við erum búin að læra ýmislegt um hvernig hópvinna á að ganga fyrir sig. Námið mitt skiptist í fjóra hluta. Það er viðskiptahlutinn, hönnun, forritun og samskipti. Þannig skiptast tímarnir sem við förum í og bækurnar sem við lesum. Verkefnin eru stór og viðamikil og snúa að öllum þessum greinum. Þetta verður yfirleitt útlitshönnun og forritun á vefsíðum, ásamt miklum undirbúningi og alskonar skipulagningu sem við lærum í viðskiptaáfanganum. Svo lærum við hvernig við eigum að markaðssetja vöruna okkar og hvernig við eigum að tala við viðskiptavini okkar og ná okkur í fleiri kúnna í samskiptaáfanganum.

Þetta nám er sem sagt mjög sniðugt því þótt maður fari meira í eina átt en aðra að loknu þessu námi, t.d. í að forrita vefsíður eða í grafsíka hönnun, þá er rosalega gott að hafa grunn í hinu svo maður viti útá hvað það gengur. Fyrir utan auðvitað að það lítur mjög vel út þegar maður sækir um vinnu að maður geti hoppað inní hvaða stöðu sem er og hjálpað til. Ég veit ekki enn hvað ég vill gera eftir þetta nám en það getur vel verið að ég komist að því þegar ég er að grúska í öllum þessum greinum á sama tíma. Það lítur sem sagt út fyrir að þessi tvö ár hérna í NoMA verði mjög skemmtileg.
Maggi.

E.s: Ég lofa að skrifa oftar ef þið farið að kommenta meira! Það er eins og öllum sé sama um mann þegar maður er fluttur til útlanda! Voruði kannski bara fegin að losan við mig?

mánudagur, ágúst 30, 2004

Þvílík og önnur eins endeimis vitleysa...

Það er ekki af manni skafið. Ég er búinn að vera að hringla í þessu símanúmera veseni en þetta komst loksins á hreint núna um helgina. Ég sendi semsagt alveg fullt af fólki vitlaust símanúmer! Sko málið er að ég var ekkert búinn að nota númerið mitt fyrstu vikuna eftir að ég keypti mér kortið því síminn minn var læstur. Svo var ég í skólanum og ekki með númerið hjá mér þegar mér tókst að aflæsa honum. Ég mundi ekki hvort númerið mitt endaði á 25 eða 26 þannig að ég brá á það ráð að hringja í bæði númerin. Alltaf þegar ég hringdi í 26 þá var á tali en ekki þegar ég hringdi í 25. Auðvitað dró ég þá ályktun að númerið mitt endaði á 26 því það á að vera á tali þegar maður hringir í sjálfan sig. En neeeiii... ekki í Danmörku. Ef ég hringi í 25 þá kemur ein hringing og svo talhólfið mitt og ég er svo heppinn (eða þannig) að það er bara alltaf á tali þegar maður hringir í 30 58 13 26!! Alveg ótrúlegt. Þannig að ég biðst afsökunar ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum, mér þykir þetta mjög leiðinlegt. Þannig að núna er hægt að ná í mig í þessu blessaða númeri sem er:

+45 30 58 13 25
Annars er allt gott að frétta. Ég var einn heima í kotinu um helgina því Rebekka brá sér í heimsókn uppí sveit. Ég kíkti niður í bæ í heimsókn til vina minna á föstudags og laugardagskvöld og kom ekki heim fyrr en um morgun og skemmti mér mjög vel. Það er alveg fullt af skemmtilegu fólki hérna og ég er búinn að kynnast mörgum, aðallega Íslendingum (enda helmingurinn af nemendunum hérna frá Íslandi). Ég verð duglegri að skrifa og skrifa meira þegar við fáum nettenginu en það verður ekki alveg strax. Það tekur víst alveg nokkrar vikur og við sóttum ekki um fyrr en í dag. Vonandi eru allir hressir heima, kveðja,
Maggi.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Síminn er kominn í gagnið!

Jájá, þetta var þá ekki mikið mál. Þolli benti mér á síðu á netinu sem aflæsti símanum mínum fyrir mig þannig að núna er ég kominn með síma sem virkar! Til að hringja inn í Danmörk er notað númerið 45 þannig að númerið mitt er

+45 30 58 13 25

Allir að senda mér SMS eða hringja! :)
Maggi.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Það er mikið að maður lætur vita af sér...

Jæja, þá er maður fluttur til Danmerkur! Það er auðvitað frá mjög mörgu að segja en ég ætla að reyna að fara fáum orðum um það því ég fer í tíma fljótlega og ég er mjög svangur!
Ég flaug til Danmerkur síðasta föstudag ásamt Rebekku og foreldrum hennar og bróður. Þau voru svo góð að hjálpa okkur að flytja og koma okkur fyrir fyrstu dagana og ég veit ekki hvað við hefðum gert án þeirra. Við komum um kvöldið til Kolding í bílaleigubíl sem var svo troðfullur af dóti að ég veit ekki hvernig við komumst sjálf inní bílinn. Þegar við komum svo fyrst inn í íbúðina við Knud Hansensvej 34 beið þar eftir okkur vinafólk Rebekku og þau voru búin að flytja alveg helling inn í íbúðina þá um daginn! Það var alveg meiriháttar og því fluttum við ekki inní tóma íbúð heldur íbúð með leðursófa og stórum skáp í stofunni og öllu til alls í eldhúsinu og borði og stólum inní stofu og Rebekka var komin með rúm og skrifborð! Þetta fengum við allt að láni (og sumt að gjöf) frá þeim, ótrúlega gjafmilt og yndislegt fólk.

Um helgina versluðum við svo það sem vantaði, ég keypti mér dót til að geyma fötin mín (lítið fatahengi og skáp) og við keyptum allar þessar litlu nauðsynjar sem þarf til að búa. Og það er sko alls ekki eins og það búi fátækir námsmenn í þessari íbúð! Það er allt rosalega fínt og flott og við erum búin að koma okkur ótrúlega vel fyrir með litlum tilkostnaði, þökk sé foreldrum og vinafólki Rebekku. Þvílík heppni fyrir mig! :) Á sunnudaginn fórum við í heimsókn til fjölskyldunnar sem hjálpaði okkur svona mikið en þau eiga heima í klukkutíma akstursfjarlægð. Þau búa í 200 ára gömlu sveitasetri þar sem þau eru með hesta og hunda á smá landsvæði þar í kring. Það minnistæðasta við þessa heimsókn var bíltúr sem ég fór með Ole, fjölskylduföðurnum, sem er svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann á 35 milljón króna Ferrari!!! Það var alveg magnað að sitja í þessum gullfallega bíl sem var eins og límdur við götuna þótt við höfum keyrt ansi hratt um tíma! Mest fórum við í 270 km/klst og hann opnaði gluggann mín megin og landið þaut framhjá á ógnarhraða! Þessum bíltúr gleymi ég seint.

Á mánudaginn kvöddum við svo Ottó og Hrafnhildi og Gauta, fjölskyldu Rebekku, en þau fóru á flakk um Danmörku. Í gærkvöldi kom vinafjölskylda Rebekku í mat til okkar og færði okkur meira dót í leiðinni! Þau komu með tölvuborð fyrir mig og 28'' sjónvarp og sjónvarpsborð í stofuna. Við erum búin að kaupa okkur DVD spilara (sem spilar DivX!) og því mun okkur ekki leiðast þegar við tökum okkur frí frá lærdómnum. Ég fékk svo loksins rúm á þriðjudaginn en það keypti ég notað en hér er fullt af búðum sem selja notuð húsgögn. Nýju rúmin voru því miður of dýr, meira að segja í ódýrustu verslununum. En rúmið sem ég fékk er alveg ágætt.

Skólinn byrjaði á mánudaginn og mér líst bara ansi vel á þetta allt saman. Það eru einn bekkur þar sem er kennt á dönsku og tveir þar sem er kennt á ensku og ég og Rebekka lentum í sitthvorum. En það er í fínu lagi, þá þurfum við ekki að vera kringum hvort annað 24/7 og það er ágætt því þá gerum við hvort annað ekki alveg brjáluð. Kennararnir virðast vera fínir og það er mjög mikið af skemmtilegum krökkum, og ótrúlega mikið af Íslendingum! Helmingurinn í mínum bekk er frá Íslandi. Þannig að það er ekki erfitt að eignast vini enda einhver undarleg samkennd hjá Íslendingum erlendis. Að vísu ná allir vel saman frá öllum löndunum og við skemmtum okkur bara vel í tímum og í hléunum. Við erum aðallega búin að vera í smá kynningum þannig að við erum ekki farin að gera nein verkefni en það byrjar strax í næstu viku. Á morgun er svo strandblaks keppni og ég er í einhverju liði sem er þó aldrei búið að æfa neitt. Sumir taka þetta mót mjög alvarlega og æfa á hverjum degi! En maður hefur heyrt að þetta sé aðallega bara fyllerí til að hrista hópinn saman og um kvöldið verður grillað og allir drekka bjór og skemmta sér vonandi fram á nótt.

Þannig að það er allt frábært að frétta héðan frá Kolding. Síminn minn kemst vonandi í lag fljótlega en hann er læstur og ég er að reyna að aflæsa honum einhvernvegin. Síminn minn verður 30 58 13 25 en það númer virkar ekki núna. Ég læt vita þegar þetta er allt komið í gang. Svo fæ ég örugglega tölvu fljótlega og við fáum okkur ADSL í íbúðina okkar þannig að ég verð á MSN aftur áður en langt um líður. Vonandi eru allir í góðu stuði heima! Kær kveðja,
Magnús.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Þetta er alls ekki dautt blogg sko... :þ

Það er ekki hægt að neita því að maður sé með tlihlökkun í maganum yfir því að vera að fara að flytja til annars lands. Danmörk er kannski ekki ljósár í burtu en það er sem örugglega nokkuð mikil viðbrigði að fara þangað í nýtt samfélag og segja bless í bili við fjölskyldu og vini. Auðvitað eignast maður bara fleiri vini, útlenska vini (og jafnvel íslenska) og það er auðvitað frábært. Námið lofar líka góðu þannig að þetta verður eflaust mjög skemmtilegt allt saman. Ég ætla að vera miklu duglegri að blogga eftir að ég er kominn út því maður hefur auðvitað frá miklu að segja í nýja lífinu sínu og svo eru líka fleiri sem vilja fylgjast með manni því maður er svolítið langt í burtu. Þó mun ég líklegast ekkert blogga fyrstu dagana því það tekur okkur smá tíma að fá internet tengingu.

Ég fer út í hádeginu á föstudaginn og er alveg að verða búinn að pakka. Mér finnst erfitt að velja hvað ég á að taka með því ég hef auðvitað aldrei flutt áður til útlanda. Sumir segja að maður eigi auðvitað bara að taka allt sem maður á! En það er ekki tilfellið, mig langar að taka mest lítið sko! Frekar merkilegt reyndar, ég tek bara með mér það sem mér finnst vera algjörar nauðsynjar, ekkert dúllerí eitthvað. Það þýðir ekkert að byrja nýtt líf í nýju landi og hafa allt gamla ruslið í kringum sig!

Ég náði því miður ekki að halda kveðjupartý en það er allt í lagi finnst mér. Ég er búinn að vera duglegur að umgangast alla sem ég þekki í sumar og ég verð nú ekki svo lengi í burtu. Ég ætla hinsvegar að kveðja landið með því að fara í leikhús á morgun og sjá Rómeó og Júlíu sem mig hefur lengi langað til að sjá.

Þegar ég kem út fæ ég mér símafrelsi og læt ykkur vita númerið um leið og ég veit það sjálfur. Það kostar jafn mikið að senda SMS út til Danmerkur og hérna heima þannig að go nuts! :) Heyri í ykkur seinna! Kær kveðja,
Magnús.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Því miður...

Það lítur ekki út fyrir að það verði neitt partý á morgun. Það eru svo margir búnir að boða forföll og svo var ég ekki búinn að tala við alla hina og það beila örugglega fleiri. Svo nenni ég varla að standa í þessu því miður. Þetta hljómaði samt rosalega vel, ég veit. Þið verðið bara að finna einhvera aðra aðferð til að kveðja mig! Og það er bara vika þar til ég fer út! Á hádegi næsta föstudag verð ég á leið til Danmerkur og guð veit hvenær ég kem aftur á klakann.
Maggi.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Lausn í sjónmáli

Góða veðrið á víst að haldast fram á laugardag. Ef spáin breytist lítið og ég hef nægan kjark og nennu til skipulags þá stefnir allt í heljarinnar teiti á laugardaginn. Og þá á ég ekki við laugardagskvöldið, heldur laugardaginn, úti í góða veðrinu. Gannels kom með þá snilldarhugmynd í dag er við sátum á svölunum hjá Bakkusi í góða veðrinu að halda bara partý í Skrúðgarðinum! Líklegast var þessu slegið fram í gríni fyrst en eftir sem við veltum okkur meira uppúr því hljómaði þetta bara betur og betur! Bjór og pítsuveisla í Skrúðgarðinum til að kveðja kallinn sem senn flyst af landi brott! Já þið heyrðuð rétt, bjór og pítsur á liðið! Enda vinna allir sem ég þekki á Pizza 67 og þeir sem ekki vinna þar vinna í ÁTVR. Lítið mál að redda veigum. Og nú er bara að redda fólki! Væri ekki snilld að sitja úti á teppi á grasinu og hlusta á gítarspil og syngja með og beðja í sig pítsusneiðum og þamba bjór í lítra vís í góða veðrinu næsta laugardag!? Ég held það nú.

Hins vegar væri lögreglan víst ekki glöð með of mikið af áfengum drykkjum á svona miklu almannafæri um miðjan dag (eða haldiði það ekki annars?) þannig að það er kannski spurning um að finna aðra staðsetningu fyrir þetta. Einhvern góðan fallegan grasflöt ekki of langt í burtu en ekki og augljósan. Talað var um rómantíska svæðið milli Garðahverfis og Eyjabyggðar, það gæti virkað. Ertu með betri staðsetningu í huga? Láttu mig vita. Og svo er bara að fylgjast spennt með hér á síðunni eða bjalla bara í kallinn og sníkja boð í teitið. (Ég býð engum fyrr en allt verður komið á hreint, ekki örvænta.) En finnst ykkur þetta annars ekki snilldarhugmynd!??
Maggi.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Þetta er eiginlega pínulítið merkilegt...

Ég er að flytja til Danmerkur 20. ágúst. Alltaf þegar fólk segir "Og hvað, ertu svo að fara í skóla í haust eða...?" þá svara ég á þá leið að ég sé að fara í Háskóla í Danmörku og flytji út um miðjan ágúst. Samt er ég ekkert að fatta það. Enganvegin. Ég segi þetta bara af því að þetta er planið mitt enn ekki af því að ég viti að það muni gerast. Ég er að flytja að heiman í fyrsta skipti og það er frekar stórt skref þótt það sé ekki tekið neitt sérstaklega snemma í mínu tilviki. En 22ja er ágætis aldur til þess, alveg jafn góður og hver annar.

Þetta er eiginlega nákvæmlega eins og þegar heimreisan var á næstu grösum. Nokkrum mánuðum fyrir 18. apríl var ég farinn að segja fólki sem spurði hvað væri framundan hjá mér að ég væri að fara í heimsreisu. Ég var búinn að plana hana, panta flug, fara í sprautur, fá vegabréfsáritanir og kynna mér lönd (hæfilega lítið þó) en samt var ég ekkert að fatta að ég væri á leiðinni í þvílíkt ævintýr kringum heiminn! Þegar nær dró fór maður að átta sig á því en maður bægði hugsuninni frá sér því hún gerði mann hræddan. Það er frekar spúkí að vera á leiðnni í heimsreisu og hafa ekki grænan grun um hvað býður manns. Þessvegna er bara málið að demba sér útí það.

Þetta er svipað með að fara til Danmerkur. Ég er þó enganvegin búinn að plana þetta eins og ég var með heimsreisuna. Ég var í útlöndum þegar ég sótti um og það var mamma sem skrifaði umsókina mína. Svo kom að því að redda íbúð og þá hitti ég Rebekku sem er á sömu leið og ég og hún reddaði því alveg fyrir okkur. Restina ætlaði ég bara að láta ráðast en Rebekka er að ég held bara búin að redda þessu öllu að mestum hluta held ég, innbúi og alles! Algjör hetja. Þannig að ég þarf lítið annað en að henda einhverju dóti í tösku og kassa og fara til útlanda. Það átti að vera síðasta verk mitt að halda kveðjupartý en móðir mín sem á húsið sem ég bý í sem stendur er búin að fá nóg af endalausu partýstandi á mér (ég er búinn að halda tvö partý, des 2001 og júl 2002) og því fæ ég ekki húsið afnota. Þannig að nema einhver góðhjartaður lumi á samastað fyrir kveðjupartýið mitt verðið því bara að kasta á mig kveðju í síðasta sinn í dágóðan tíma ef þið sjáið mig útá götu næstu daga.
Maggi.

laugardagur, ágúst 07, 2004

Flennifínt

Ég er nú sérdeilis ekki duglegur að skrifa þessa dagana enda lítið að gerjast í heilabúinu mínu sem stendur. Lífið snýst um að vinna, vinna sér inn pening því það kostar víst peninga að flytja til útlanda. Þó verður maður líka að lifa lífinu og því fékk ég mér frí í vinnunni í kvöld til þess að fá mér bjór og kíkja á lífið með vinunum. Það eru bara tvær helgar eftir á elsku ískalda fróni og svo er maður flúinn enn á ný. Þá verð ég eflaust duglegur að blogga enda töluvert forvitnilegra að lesa um einhvern sem er nýfluttur til útlanda í fyrsta sinn og svo er maður líka svo... þenkjandi, hmmm... skemmtilegt orð... þegar maður er kominn aftur í nám eftir einhverja fjarveru. Gaman að því. Vonum bara að þessu bloggi sé viðbjargandi. Jú ég held það nú. Eruði annars ekki bara hress öll sömul?
Maggi.

mánudagur, ágúst 02, 2004

ZZZzzzzzzz.....

Ég er að fara að sofa, en klukkan er bara hálf níu. Það er sökum gífulegrar þreytu sem hefur heltekið líkama minn. Það vill gerast þegar maður djammar heila helgi og sefur svo bara klukkutíma áður en maður tekur 12 tíma vakt í vinnunni sinni.

Það var virkilega gaman á Akureyri. Gaman að hitta fjölskylduna fyrir norðan og gaman að djamma með vinunum (sem voru svo sniðugir að kíkja norður). Ég fór ekki á eitt einasta ball heldur var bara niðri í bæ og á klúbbunum þar og á röltinu um tjaldstæðin. Við lögðum svo ekki af stað heim fyrr en hálf ellefu í gærkvöldi og vorum því ekki komnir heim fyrr en hálf fjögur, klukkutíma áður en ég þurfti að hafa mig til fyrir vinnuna. Því er ég þreyttur og frekar pirraður og ætla því ekki að skrifa meira hér í þetta skiptið. Ég vona að þið hafið átt skemmtilega verslunarmannahelgi hvort sem þið brugðuð ykkur af bænum eða slöppuðuð bara af heima.
Maggi.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Akureyriiiiiiii!

Maður situr sko ekki auðum höndum þessa verslunarmannahelgi frekar en endranær. Í ár er stefnan sett á höfuðborg norðurlands og það verður hrikalega gaman. Því miður er þetta stutt fríhelgi, s.s. ég þarf að fara að vinna á mánudagsmorgun, en maður gerir bara það besta úr þessu. Við keyrum í fyrramálið kl. 6 beint eftir næturvaktina mína til þess að losna við traffík og auðvitað til að geta eytt meiri tíma á Akureyri. Mér finnst einhvernvegin eins og stefnan sé almennt sett á Akureyri hjá fólkinu sem ég hef talað við og heyrt um enda verður góða veðrið þar eins og alltaf. Ég kem eflaust með einhverjar svæsnar djammsögur eftir helgina þannig að farið ekki langt...
Maggi.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Stutt og laggott.

Ég bauð nokkrum vinum heim í kvöld og ég og Biggi sýndum þeim myndir úr reisunni okkar. Mér þótti það gaman og vona að aðrir hafi haft gaman að því líka. Ég sýndi þeim rúmlega 900 myndir af þeim 3000 sem ég tók. Já, þannig var nú það.
Maggi.

mánudagur, júlí 26, 2004

Red Shoe Diaries

Ég veit ekki af hverju en í nokkuð langan tíma er mig búið að langa að eiga rauða skó. Í dag rættist sá draumur loksins! Fann líka þessa fínu skó í Bianko, sem er b.t.w. mjög góð skóbúð. Nenni ekki að skrifa meira því ég er á leiðinni í sund. Hvenær hætti þessi síða að vera um pælingarnar mínar og varð upptalning á því sem ég er að gera? Hmmm...
Maggi.
Stundum er bara gaman að vera til

Undanfarnir dagar hafa verið mjög skemmtilegir. Merkilegt hvað það getur ræst úr vinnuhelgum. Ég er voðalega mikið helgarbarn eins og líklega flestir sem ég þekki. Á föstudaginn kíkti ég til Atla og hitti alla strákana og það var mjög gaman. Jói mættur aftur á klakann eftir tvo mánuði á Grænlandi af öllum stöðum! Auðvitað þurfti ég að fara tiltölulega snemma að sofa enda vinna daginn eftir en það var líka bara allt í lagi. Á laugardeginum var mér svo boðið í grillveislu hjá Torgeirz og vitandi að slík veisla myndi eflaust leysast upp í fyllerí og vitleysu reddaði ég mér skiptivinnu fyrripartinn í dag (alveg mögnuð redding á síðustu stundu).

Grillveislan var mjög skemmtileg (takk fyrir mig!) og svo var haldið niður í bæ og kíkt á liðið á Pizza 67 þar sem var staffapartý. Svo tróð ég mér einhvernveginn inn á Traffic, nýjastu tilraunina til að nýta þetta húsnæði við hliðina á 67, en eins og allir vita liggur bölvun á þessu pleisi og allt fer á hausinn. Það var stappað þar inni og mikil stemmning og virkilega gaman. Eftir að hafa svo haldið mjög lítið og stutt eftirpartý (og afskaplega fyndið eitthvað) og svo náð að sofna í klukkutíma, dreif ég mig svo í vinnuna ákaflega hress að sjálfsögðu. Þynnkan var þó ekkert að drepa mig og er það líklegast útaf því að ég náði að borða fjóra hamborgara í grillveislunni! Geri aðrir betur.

Í kvöld kíktum við strákarnir svo í bíó á I, Robot og það er hin fínasta skemmtun og má alveg mæla með henni. Það er farið að hlakka í manni að komast norður og upplifa verslunarmannahelgina þar í enn eitt skptið. Það hefur ekki verið leiðinlegt hingað til og spái ég því að engin breyting verði þar á þetta árið. Svo styttist í að maður sé bara á leiðinni til Danmerkur! Tíminn líður svo ótrúlega hratt eitthvað. Á morgun er ég á leiðinni í bæinn með nokkrum af strákunum og ég er að spá í að kaupa mér skó! Eða amk reyna að byrja á því að leita mér að skóm því það er venjulega um tveggja vikna prósess hjá mér sko. Ég hlýt nú bara að finna eitthvað sniðugt, vonum það. En hvernig lýst ykkur annars á græna litinn?
Maggi.

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Ég henti síðustu færslu því hún var ekki nógu up-beat. Þeir sem náðu að lesa hana áður en ég henti henni verða að fyrirgefa mér leiðindin.
Kv. Maggi.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Oh Crappy Day

It's just one of those days. Ég ætti ekki að vera að blogga núna. Það er bara eitt á eftir öðru. Í gær og dag er ég búinn að þurfa að borga um 20 þúsund kall í óvæntan og óþarfa kostnað. Ömurlegt, sérstaklega þegar maður er svona fátækur eftir heimsreisuna. En ég ætla ekki að draga ykkur niður með einhverju væli, það hjálpar engum. Spurning um að koma sér bara í vinnuna. Ég er nefnilega kominn yfir á næturvaktir, sem er reyndar alveg besta mál. Vonandi gengur þessi vika betur hjá ykkur en hjá mér. Og já, svo er búið að bjóða mér í bústað og partý um næstu helgi og mig langar í bæði, en ég get ekki farið í bæði. Ég get farið í hvorugt! Vinna, alla helgina. Næsta vika verður betri, og þá sérstaklega helgin því þá er verslunarmannahelgi! Woohoo! Ég ætla að skella mér norður og heimsækja liðið þar og jafnvel kíkja á ball. Það verður sko hrikalega gaman.
Maggi.

sunnudagur, júlí 18, 2004

Taður* Dauðans

Það var ekkert smá gaman hjá okkur um helgina uppí sumarbústað. Alltaf þegar maður heldur að það bara sé ekki hægt að toppa bústaðaferðirnar okkar þá gerum við akkúrat það! Þessi sló flest met held ég og allir skemmtu sér konunglega leyfi ég mér að fullyrða. Á föstudagskvöldinu voru kringum 15 manns og þá var mikið sungið og spilað á gítar og auðvitað grillað og hangið í heita pottinum. Á laugardeginum voru svo vaktaskipti og slatti af fólki fór heim og nýjir komu í staðinn. Það hafa verið um 12 manns í gærkvöldi og það var töluvert öðruvísi stemmning í gær heldur en á föstudaginn. Reglan er að seinna kvöldið er alltaf skemmtilegra og það breyttist ekkert með þessari ferð. Bústaðurinn breyttist skyndilega í dansstað þar sem fólk missti sig í hamslausri gleði á dansgólfinu við undirleik Fatboy Slim**. Þegar líða tók á nóttina tóku sumir ónefndir menn örlítið flipp og ég get svo svarið það, ég hef oft hlegið mikið, en aldrei eins mikið og í gær. Ég stóð ekki í lappirnar.
 
Gaman að segja frá því að í gærkvöldi tókum ég og Stinni og Nelson smá labbitúr niður að vatni og á leiðinni heyrðum við þvílík læti frá einum bústað uppí hlíðinni. Við urðum auðvitað að athuga hvort þar væri ekki gott partý að finna og bönkuðum uppá. Og viti menn! Við lentum í partýi með eintómum Keflvíkingum! Þetta voru aðeins eldri krakkar en maður kannaðist samt við langflest andlitin. Það var mjög gaman að heimsækja þau en við stoppuðum stutt því okkur vantaði bjór. Þegar við komum svo aftur í okkar bústað var svo rosalega gaman þar að við nenntum alls ekki aftur en fengum þó einn góðan gest úr hinum bústaðnum til okkar.
 
Allir sem misstu af þessari snilld verða bara að mæta næst. Ammælisbústaðaferðirnar eru besta skemmtun sem völ er á segi ég og skrifa. Þar sem ég er að flytja til Danaveldis þá verður líklega engin bústaðaferð fyrr en næsti Ammælis-taður verður haldinn. Þá skulu sko allir taka sér frí á föstudeginum í vinnunni og það verða þrjú kvöld og þrír dagar sem fara í að fagna 23ja ára afmælinu mínu! En núna þarf ég að fara að sofa svo ég lifi nú daginn af í vinnunni á morgun. Það var nefnilega ekki mikið sofið um helgina. :)
Maggi
 
* (Taður = Bústaðuinn Góuhlíð)
** (Fatboy Slim = Feiti mjói feiti mjói)

föstudagur, júlí 16, 2004

Hanná ammælí dag (á morgun)

Ég heiti Magnús Sveinn Jónsson. Fyrir tuttugu og tveimur árum kom ég í heiminn á Ísafirði af öllum stöðum. Þar bjó ég í hamingjusamlegri fáfræði æsku minnar þar til ég komst til vits og ára og varð fimm ára. Þá áttaði ég mig á því að Ísafjörður var ekki að uppfylla bernskudrauma mína og ég fluttist til Akureyris. Þar hóf ég nám og eltist og vitkaðist með hverju árinu. Ég hraktist burt frá Akureyri eftir skilnað foreldra minna þá rétt tæplega tíu ára gamall, og settist að í Keflavík. Þar hef ég svo búið í hvorki meira né minna (að vísu aðeins meira) en tólf ár! Og nú er komið nóg...

...enda hygg ég á breytingar. Eftir að hafa tekið einn rúnt um jarðarkringluna sem við búum á (og þykjumst nokkuð viss um að sé eina plánetan í heiminum með nokkru viti, hvað er málið með það?) áttaði ég mig á því að Ísland er ekki miðja alheimsins, og þaðan af síður Keflavík. Því mun ég flytjast til Danmerkur og loksins læra að standa á eigin fótum (vonandi) og læra meira um það áhugamál mitt sem þessi heimasíða er afsprengi af. Nefnilega hönnun og vefsíðugerð, og heitir námið því feykifína nafni, margmiðlun.

Í Danmörku verður heimabær minn (í þau tvö ár sem námið stendur yfir) Kolding á Jótlandi. Þar er öllum guðvelkomið að heimsækja mig og sandgerðismærina Rebekku sem verður meðleigjandi minn. Þetta verður eflaust mjög skemmtilegur tími og námið lofar góðu. Ég er farinn að hlakka virkilega til að yfirgefa klakann á ný og lenda í fleiri ævintýrum.

En í sambandi við afmælið á morgun þá eru pakkar vel þegnir, harðir sem mjúkir, litlir sem stórir (en ef þeir eru litlir þá verða þeir að vera þeim mun verðmætari). Blóm og kransar afþakkaðir (en gjafabréf í ÁTVR gæti komið þeirra í stað). Ég verð að vísu ekki á heimili mínu um helgina, heldur mun ég kíkja í sumarbústað með góðum vinum og fagna þessum merka áfanga í lífi mínu.
Maggi ammælisbarn.