Bús-í-tað
Það hefur vart farið framhjá glöggum lesendum þessa forláta bloggs að oft er eftirvænting mikil á þessum bænum þegar styttist í skemmtilegan atburð. Slíkt ku minnka ánægjuna af téðum atburð sé mark tekið á nokkrum fjölda fólks sem heldur þessu statt og stöðugt fram og yppir því öxlum og vill ekki viðurkenna að litlu fiðrildin í maganum stafi af neinu nema vondum hægðum þegar tilhlökkun segir til sín. Þessar Gróusögur afsannaði ég endanlega, þó ekki væri nema fyrir undirrituðum, um þessa helgi.
Ég var búinn að hlakka mikið til þessarar bústaðarferðar enda er gaman að halda uppá afmælið sitt með bestu vinum sínum og bústaðarferðir hafa hingað til ekki verið neitt annað en mjög skemmtilegar. Ferðin stóð líka algjörlega undir þessum væntingum og vel það. Þetta var alveg æðislega gaman. Hreinasta snilld jafnvel. Ég, Kristinn og Biggi (nenni ekki að nota dulnefni í þessari færslu, veit ekki af hverju) lögðum af stað um miðjan föstudaginn og stöldruðum við nokkra stund í Reykjavík þar sem við löbbuðum Laugarveginn í æðislegu veðri og skoðuðum ljósmyndasýninguna niðrí bæ, sem er ekkert smá flott. Við náðum að vísu bara að skoða tæplega helminginn þannig að maður á eflaust eftir að kíkja þarna aftur. Síðan komum við okkur uppí bústað eftir að hafa þrætt hverja einustu búllu á Selfossi í leit að ísmolum, því þótt ég hafi lagt mér til munns ólgandi heitan Tuborg (og það tvo) í algjöru hallæri á Hróarskeldu, þá komst ég ekki upp á bragðið með það. Það hefði verið auðveldara að finna Íslending á Laugarveginum heldur en að finna svo mikið sem einn falan ísmola á Selfossi í þessu über góða veðri sem var á föstudaginn. Þannig að við létum okkur nægja ískalt kranavatn til að kæla bjórinn og tókst það ágætlega. Fólkið fór fljótlega að mæta á svæðið og við chilluðum í sólinni, sötrandi, maulandi og spjallandi. Dormandi.
Seinna á föstudagskvöldinu rölti sirka helmingurinn af gestunum (fimm eða sex strákar) niður að vatni til að busla smá. Vatnið var nottla skítkalt, en það var svo grunnt að við komumst útí mitt vatn (og það er ekkert lítið) og þó náði vatnið bara uppað hnjám! Auðvitað lentum við svo í slag og menn duttu í ískalt vatnið hvað eftir annað. Skemmtilegast var þó á leiðinni uppúr því ef maður hljóp eins hratt og maður gat uppúr var alveg eins og maður væri að hlaupa ofan á vatninu, bæði fyrir þann sem á horfði og þann sem hljóp! Það var ekkert smá gaman og fyndið og mikið var blótað að Pamela væri ekki með í för (Pamela er myndbandsupptökuvél fyrir þá sem ekki þekkja til). Svo var farið í pottinn í bústaðnum og bara djammað fram eftir nóttu. Mjög gaman allt saman.
Þegar við vöknuðum á laugardeginum var veðrið lítið síðra þótt ekki sæist til sólar alveg strax. Þrír sváfu uppi á þaki í góða veðrinu og lofuðu mjög þá reynslu því veðrið var svo rosalega gott. Ég sé eftir því að hafa ekki prófað það. Við fórum aftur niður á strönd, í þetta skiptið á annan og mun flottari stað hjá vatninu og við lékum okkur heillengi útí vatninu við það að kasta á milli okkar bolta og ærlsast bara. Það var miklu skemmtilegra en það hljómar, veðrið var geggjað og allt eitthvað svo skemmtilegt bara. Einn inniskór ákvað að leggja sjó undir skó (ekki land undir fót semsagt) og týndist útí vatni. Ég mæli ekki með því að ganga langar vegalengdir, berfættur á einum eða fleiri fótum á rauðamöl. Það er ekki gott, og sérstaklega af því að ég var kominn meira en hálfa leið þegar ég fattaði að láta einhvern lána mér sokk. Dagurinn var alveg frábær, mikið legið í sólbaði, aðallega uppá þaki, og segir eldrauður líkami minn allt sem segja þarf um gæði veðursins og heimsku eiganda líkamans, því sólaráburður var með í för en ekki nýttur sem skildi. Alltaf gott að vera gáfaður eftirá, og líka fyrirfram í þetta skiptið, en bara ekki meðan leikurinn stendur sem hæst.
Smá umskipti voru þetta kvöld. Gestir fóru og aðrir bættust við, en sumra var saknað sem ekki komust. Auðvitað var kíkt aftur í pottinn, mikið spjallað og hlustað á tónlist og spilað á gítar og sungið. Hráefni hafði verið keypti um daginn á Selfossi til að útbúa bongu sem var og gert, hlaut hún hið virðulega nafn
Drullusokkur. Drullusokkur verður eflaust vel nýttur á komandi Þjóðhátið, en ekki var hann mikið notaður þarna, og í helming þeirra skipta sem hann fékk að spreyta sig fékk pallurinn bróðurpartinn af bjórnum en ekki eigandi hans sem horfði á eftir áfenginu renna niður um glufurnar. Ég er ekki frá því að potturinn (sem ekki hefur enn hlotið nafn að mér vitandi) hafi líka fengið einn bjór. Var það ekki gæðum
Drullusokksins að kenna, því þau voru fín, heldur vankunnáttu þeirra sem léku um hann höndum. Úr þessu kunnáttuleysi verður bætt á komandi Þjóðhátið, því það er mjög skemmtilegt að verða kenndur án þess að þurfa að drekka, bara láta áfengið renna ljúflega niður í maga á örfáum sekúntum í hvert skipti. Þó bera að varast ofnotkun eins og heitan eldinn, bitur reynsla kennir manni það (vonandi).
Tónlist skipaði stóran sess í þessari ferð, bæði læv og úr hinu snilldar hljóðkerfi sem sett var upp á staðnum. Þar var efst á öllum vinsældarlistum lag úr þeirri frábæru mynd
Donnie Darko (sem ef þú ert ekki búin/n að sjá ættir að gera það hið snarasta) og heitir lagið
Mad World. Frábært lag og þú ættir að downloda því ólöglega af netinu um leið og þú ert búin/n að lesa þessa færslu (sem fera að styttast í annan endann).
Sunnudagurinn fór svo í afslöppun, pott, og mikla og langdregna tiltekt og þrif, sem stafaði af þreytu ferðalanganna. Það fylgir þó alltaf og þegar allir taka til hendinni er það ekki svo mikið verk. Helst að skilja allt eftir hreinna en það var þegar maður kom, bara svona til að þakka fyrir sig. American Style var svo heimsóttur af okkur þremur bílfélugunum sem ég minntist á í upphafi. Arnaldur Svakanaggi var svo skoðaður í Terminator III, og er sú mynd bara mjög góð. Betri en ég bjóst við og þó hafði ég miklar væntingar. Best að lýsa því þannig að hún er betri en Matrix 2 að mörgu leyti, en þó ekki öllu. Og
vá hvað stelpan sem leikur vélmennið er flott! Úff, og hún er bara tuttugu og þriggja ára. Ætli maður eigi sjéns? Ég myndi líklegast vera of hræddur við hana, því að í tvo tíma í kvöld þá trúði litla hjartað mitt því að hún væri vélmenni. Ölluheldur vélkvendi. En nú tekur við vinna, en það er einungis ein og hálf vika í Eyjar 2003. Það verður gaman. Þetta sumar verður bara betra og betra. Vonandi höfðuð þið það gott í blíðunni. Góðar stundir.
..:: magchen, 21, and still going strong ::..